Grímur það sem koma skal?

Diamond Princess var líkt við fljótandi farsóttarsjúkrahús. 700 farþega smituðust …
Diamond Princess var líkt við fljótandi farsóttarsjúkrahús. 700 farþega smituðust af kórónuveirunni og tíu létust. AFP

Hinn 20. janúar gekk eintaklingur sýktur af Covid-19 um borð í Diamond Princess-skemmtiferðaskipið. Mánuði síðar voru 700 af 3.711 farþegum skipsins sýktir. Margir þeirra veiktust alvarlega. 10 létu lífið.

Undanfarna mánuði hafa vísindamenn reynt að finna út nákvæmlega hvernig þessi skæði laumufarþegi, kórónuveiran, hegðaði sér um borð í skipinu. Ekki að ástæðulausu enda bendir margt til þess að Diamond Princess-málið sé ein verðmætasta tilviksrannsókn sem til er um hegðun veirunnar og hvernig hún smitast á milli manna.

Fjallað er um málið í New York Times þar sem sagt er frá hópi vísindamanna sem hafa byggt rannsóknir sínar á tölvugerðum líkönum um útbreiðslu veirunnar á heimsvísu en útfæra þau nú á smærri tilvik.

Í loftinu í margar mínútur

Í þessari nýju rannsókn teymis vísindamanna frá Harvardháskóla og Illinois Institute of Technology er reynt að rekja dreifingu veirunnar og hvernig hún barst manna á milli í einkaklefum á Diamond Princess, á göngum skipsins og í sameiginlegum rýmum þess. Teymið komst að því að því að veiran dreifist helst með dropasmitsögnum (e. microscopic droplets) sem eru nægilega léttar til þess að geta svifið um í lofti í nokkrar mínútur eða lengur.

Fólk með grímur í skemmtigarði í Shanghai.
Fólk með grímur í skemmtigarði í Shanghai. AFP

Rétt er að taka fram að greinin hefur ekki enn verið ritrýnd en blaðamenn NYT báru hana undir fjölda smitsjúkdóma- og veirusérfræðinga.

Áhrifamiklar niðurstöður

Hinar nýju niðurstöður bæta enn frekari lit við annars litríkar umræður lækna, vísindamanna og forkólfa í heilbrigðismálum um það hvernig veiran hegðar sér. Fyrr í þessum mánuði staðfesti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin að veiran gæti staldrað við í lofti innandyra og þannig hugsanlega valdið nýjum sýkingum. Áður hafði stofnunin lagt áherslu á stærri dropa, t.d. þegar fólk hóstar, eða á algenga snertifleti, sem helstu smitleðir, en enn eru fjölmargir sérfræðingar sem segja þetta helstu smitleiðir veirunnar.

Niðurstöðurnar, ef staðfestar, munu væntanlega breyta miklu. Sér í lagi hvað varðar þá umræðu að gera rými innandyra örugg og ekki síst í umræðunni um grímurnar eða val á öðrum einstaklingsbundnum smitvarnabúnaði.

Loftræstingar sem skipta reglulega um loft ættu að vera af hinu góða en það nægir ekki í ljósi þess að Dimand Princess-skipið var vel loftræst. Það að bera grímu verður eflaust það sem koma skal, jafnvel í vel loftræstum rýmum þar sem fólk heldur skikkanlegri fjarlægð.

Greinina í New York Times má lesa í heild sinni hér.

mbl.is