Taugrímur geti verið betri en ekkert

Tónlistarkonan Lady Gaga sést hér með einhvers konar taugrímu.
Tónlistarkonan Lady Gaga sést hér með einhvers konar taugrímu. mbl.is/skjáskot Instagram

Notkun taugríma á ekki að koma í stað aðferða sem vitað er að virka betur í baráttunni gegn kórónuveirunni; eins og að halda tveggja metra fjarlægð, handþvottur, almennt smitgát og að forðast margmenni. Skortur er á rannsóknum á gagnsemi taugríma gegn veirunni en þær geta verið betri en ekkert, leyfi aðstæður ekki annað.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari á Vísindavefnum þar sem spurt er hvort taugrímur dugi til að verjast COVID-19.

Í stuttu máli vitum við að taugrímur virka ekki eins vel og skurðgrímur eða veirugrímur. Hins vegar geta þær verið betra en ekki neitt ef aðstæður leyfa ekki annað. Taugrímur eru einfaldlega fjölnota grímur gerðar úr hverskonar taui, gjarnan bómull. Skurðgrímur eru hins vegar einnota grímur hugsaðar sérstaklega fyrir notkun í heilbrigðiskerfinu. Veirugrímur eru síðan fínagnagrímur, gjarnan með ventli, sem eru aðallega notaðar í byggingariðnaði og í heilbrigðiskerfinu í vissum sýkingarvörnum,“ segir í svarinu.

Grímur geta verið gagnlegar en almennt er talið að svokölluð fjarlægðartakmörkun (e. physical distancing), það er að viðhalda tveggja metra reglu, fara ekki á stór mannamót og vera sem minnst í návígi við aðra sé besta leiðin til að koma í veg fyrir smit. Ef fjarlægðartakmörkunum er viðhaldið eru grímur í raun belti með axlaböndum. Þá eru þær óþarfa viðbót með tilheyrandi kostnaði og óþægindum,“ segir enn fremur.

Grímur þarf að nota á réttan hátt svo árangur náist:

  • Hendur þurfa að vera hreinar áður en gríma er sett á.
  • Gríman þarf að hylja nef og munn.
  • Ekki má snerta sjálfa grímuna eftir að hún er komin á.
  • Ekki ætti að taka grímuna niður nema næsti einstaklingur sé í minnst tveggja metra fjarlægð.
  • Aðeins á að snerta böndin þegar gríma er tekin niður, henni skal fleygja á öruggan hátt og hendur þvegnar að því loknu.
  • Ef nota þarf grímu í langan tíma á að skipta reglulega til að koma í veg fyrir rakamettun (á sérstaklega við um einnota grímur).
  • Fjölnota grímur þarf að þvo daglega (aðferð fer eftir gerð grímu).

Samantekt:

  • Grímur koma ekki í stað tveggja metra reglu, almennrar smitgátar og hreinlætis.
  • Grímur virka helst þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð í nokkurn tíma.
  • Grímur virka til að koma í veg fyrir smit, bæði til okkar og frá okkur til annarra.
  • Mikilvægt er að nota grímurnar rétt, samanber leiðbeiningar að ofan.
  • Skurðgríma dugar vel í samfélaginu en sérstakar veirugrímur á að nota við ákveðnar aðstæður, aðallega innan heilbrigðiskerfisins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert