Nýr leikur býður upp á flug til Íslands

Flogið er til Íslands í leiknum.
Flogið er til Íslands í leiknum. Skjáskot/Airplane Mode

Taka má flugið frá JFK-flugvelli í New York til Keflavíkurflugvallar í nýjum tölvuleik sem kynntur var á dögunum.

Leikurinn ber heitið Airplane Mode en um er að ræða óhefðbundinn flughermi þar sem spilarinn fær sæti við glugga í flugvél sem tekur á loft vestanhafs og setur stefnuna á Ísland.

Reynt er að herma eins vel og hægt er eftir þeirri upplifun sem því fylgir, allt frá sígilda sætisbakinu fyrir framan þig til hegðunar flugfreyja og annarra farþega, að því er segir í lýsingu leiksins á Steam-leikjaveitunni.

Ókyrrð í lofti og slæmt samband

Og rétt eins og í raunveruleikanum á engin ferð að vera annarri lík. Meðal annars eru í leiknum hefðbundin flugöryggismyndbönd, veitingaþjónusta, afþreyingarkerfi og flugtímarit, auk ýmissa tilviljanakenndra þátta á borð við ókyrrð í lofti, slæmt netsamband og tafir, að ógleymdum grátandi ungbörnum.

Þótt leikurinn sé einkar viðeigandi nú, á tímum fækkandi ferðalaga sökum faraldurs kórónuveirunnar, þá hefur hann verið í vinnslu frá árinu 2017 að því er segir á vefnum Travel and Leisure.

Auk Íslandsflugsins býður leikurinn einnig upp á styttri flugferð, frá New York til Halifax í Kanada.

mbl.is