5G formlega í loftið hjá Vodafone

Frá kynningu Vodafone á 5G og tengdri tækni.
Frá kynningu Vodafone á 5G og tengdri tækni. Ljósmynd/Aðsend

Vodafone setur í dag formlega í loftið 5G en fyrsti sendir fyrirtækisins er staðsettur við höfuðstöðvar þess á Suðurlandsbraut. Félagið stefnir á öfluga uppbyggingu 5G næstu árin, m.a. í gegnum Sendafélagið sem er í sameiginlegri eigu Vodafone og Nova.

5G er fimmta kynslóð farsímakerfa sem býður upp á allt að tíu sinnum meiri hraða en 4G með meðalhraða upp á 150-200 mb á sekúndu, að því er segir í tilkynningu.  

„Vodafone hefur verið leiðandi í IoT (Internet of Things) lausnum hér á landi og starfað með fjöldamörgum fyrirtækjum og sveitarfélögum á því sviði síðustu ár. 5G mun styrkja stöðu okkar enn frekar auk þess að opna á spennandi möguleika hvað varðar nettengingar fyrir heimilin í landinu. Áhrif 5G munu verða fyrir heimili og fyrirtæki svipuð og 4G var fyrir einstaklinga á sínum tíma,“ segir Heiðar Guðjónsson, forstjóri Vodafone, í tilkynningunni.

Fyrirtækið mun á næstu misserum kynna ýmsar lausnir byggðar á 5G en framboð á 5G-lausnum verður háð framboði á endabúnaði (t.d. 5G-netbeinum) og tækjum sem styðja við 5G-kerfi. Vodafone starfrækir í dag 4G-kerfi sem nær til 99,7% landsmanna og mun áfram verða unnið að uppbyggingu þess samhliða 5G.

Í tilefni dagsins hélt Vodafone kynningu á 5G og tengdri tækni. Meðal þess sem gestir fengu að kynnast var nýjasta tækni sem byggir á 5G auk þess að fá innsýn í það hvernig 5G styður við sýndarveruleika (VR) og aukinn veruleika (AI). Á næstunni mun almenningi bjóðast að upplifa hraða og möguleika 5G í verslun félagsins að Suðurlandsbraut 8.

mbl.is

Bloggað um fréttina