Prófa vistvæna repjuolíu á Keflavíkurflugvelli

Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur. mbl.is/Eggert

Isavia og Samgöngustofa undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um samstarf vegna tilraunaverkefnis um íblöndun repjuolíu á stórvirk vinnutæki á Keflavíkurflugvellli. Forstjóri Isavia segir þetta stórt skref í átt að því að minnka notkun jarðefnaeldsneytis á flugvellinum. Samgönguráðherra segir að tilraunir með ræktun repjuolíu hafi staðið lengi yfir á Íslandi og að verið væri að taka stórt skref með samþykktinni.

„Það má rekja stærsta hluta notkunarinnar til þeirra stóru tækja sem notuð eru til að þjónusta flugbrautir og athafnasvæði flugvalla og viðhalda þeim. Þetta eru tæki sem eru ekki enn fáanleg rafmagnsknúin.

Með þessu erum við því að finna aðra og umhverfisvænni orkugjafa til að knýja þau áfram,“ segir Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður stefnumótunnar og samfélagsábyrgðar hjá Isavia, í tilkynningu til fjölmiðla.

Hún segir eitt af markmiðum fyrirtæksins vera að minnka notkun jarðefnaeldsneytis.

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia ohf., og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri …
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia ohf., og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, við undirritun viljayfirlýsingarinnar í dag. Ljósmynd/Isavia

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir viljayfirlýsinguna mikilvægt skref. „Við höfum frá árinu 2018 kolefnisjafnað alla okkar eigin eldsneytisnotkun þannig að við höfum látið verkin tala. Viljayfirlýsingin sem hér er undirrituð er mikilvægt skref í átt að minni notkun jarðefnaeldsneytis hjá Isavia.“

Sigurður Ingi Jóhannson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fyllir á tankinn.
Sigurður Ingi Jóhannson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fyllir á tankinn. Ljósmynd/Isavia

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, óskaði þeim sem stóðu að viljayfirlýsingunni til hamingju með það skref sem nú hefur náðst.

„Ræktun repju og nýting afurða hennar hefur marga góða kosti bæði fyrir landbúnað og sem umhverfisvænn orkugjafi. Í dag er stigið mikilvægt skref á þeirri vegferð sem vonandi er rétt að byrja,“ sagði ráðherrann við undirritun samningsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert