Stöðva þróun bóluefnis vegna veikinda

Fyrirtækið AstraZeneca hefur stöðvað þróun bóluefnis við kórónuveirunni eftir að einn þátttakandi í rannsókn þess veiktist skyndilega. Ekki er þó útlit fyrir að þetta setji þróun bóluefnisins í uppnám. Bóluefnið er á lokastigum prófana og er fyrirhugað að Ísland fái bóluefni frá AstraZeneca ef markaðsleyfi fæst. STAT News greindu fyrst frá.

Líklegt þykir að fyrirtækið hafi sjálft hætt prófunum eftir að upp komst um mögulega aukaverkun bóluefnisins og að ekki hafi neinn eftirlitsaðili haft þar aðkomu.

Haft er eftir talsmanni AstraZeneca að prófun bóluefnisins hafi verið stöðvuð vegna „reglubundinna aðgerða sem gripið er til þegar grunur leikur á um óútskýrð veikindi við prófun lyfja og bóluefna, svo niðurstöður prófana skekkist ekki“.

Ísland fær mögulega bóluefni frá AstraZeneca

Líkt og áður sagði er útlit fyrir að bóluefni AstraZeneca verði það sem stendur Íslendingum til boða takist að fá markaðsleyfi fyrir bóluefnið að prófunum loknum. Líkt og áður hefur komið fram í fréttum mbl.is og Morgunblaðsins hafa Svíar heimild til þess að selja okkur bóluefni við ástand líkt og skapast hefur vegna kórónuveirufaraldurins. Yrði það gert á grundvelli samninga sem íslensk stjórnvöld hafa gert við Svíþjóð.

Málið er nú til skoðunar hjá AstraZeneca.
Málið er nú til skoðunar hjá AstraZeneca. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert