Gætu hafið prófanir á sænska bóluefninu að nýju

Starfsmenn AstraZeneca sem hafa yfirumsjón með gögnum og öryggisþáttum rannsóknarinnar …
Starfsmenn AstraZeneca sem hafa yfirumsjón með gögnum og öryggisþáttum rannsóknarinnar staðfestu að konan hefði verið sprautuð með bóluefninu en ekki lyfleysu. AFP

Sænsk-breski lyfjaframleiðandinn AstraZeneca gæti hafið prófanir á bóluefni gegn kórónuveiru aftur í næstu viku, að því er Financial Times greinir frá en blaðið vísar í heimildarmenn innan AstraZeneca sér til stuðnings.

Lyfjaframleiðandinn þurfti að gera hlé á alþjóðlegum rannsóknum sínum á bóluefninu eftir að ein af þeim sem tók þátt í prófunum veiktist. Í kjölfar þess að AstraZeneca gerði hlé á prófunum lækkaði gengi hlutabréfa í fyrirtækinu. 

Íslensk stjórnvöld hafa samið við Svía um milligöngu á bóluefninu hingað til lands. Bóluefnið er á lokastigum prófana. 

Konan fékk bóluefnið, ekki lyfleysu

Konan sem veiktist upplifði einkenni sjaldgæfs en alvarlegs hryggbólgusjúkdóms sem kallast á ensku transverse myelitis, að því er framkvæmdastjóri AstraZeneca, Pascal Soriot, greindi frá á einkasímafundi með fjárfestum í morgun. Ekki hefur verið staðfest að konan sé með sjúkdóminn en líðan hennar hefur skánað og verður hún líklega útskrifuð af sjúkrahúsinu í dag, að sögn Soirot. Statnews greinir frá þessu.

Starfsmenn AstraZeneca sem hafa yfirumsjón með gögnum og öryggisþáttum rannsóknarinnar staðfestu að konan hefði verið sprautuð með bóluefninu en ekki lyfleysu, sagði Soriot á fundinum sem fjárfestingabankinn JP Morgan undirbjó. 

Vísindamenn víða um heim vinna nú hörðum höndum að þróun …
Vísindamenn víða um heim vinna nú hörðum höndum að þróun bóluefnis við kórónuveirunni. AFP

„Bóluefni sem enginn vill fá er ekki mjög gagnlegt“

Soriot staðfesti einnig að hlé hefði verið gert á rannsókninni einu sinni áður. Það var í júlí þegar þátttakandi fann fyrir einkennum sem síðar reyndust vera MS-sjúkdómurinn. Að sögn Soirot er sú greining talin alls óskyld þátttöku hans í rannsókninni. 

Einn af fjárfestunum sem voru á símafundinum sagði að ummæli Soirot væru til þess fallin að fullvissa fjárfesta um að AstraZeneca tæki öryggishlutverk sitt alvarlega. Með því vildi hann snúa við þeim skaða sem atburðurinn hefur valdið hlutabréfum fyrirtækisins. 

„Bóluefni sem enginn vill fá er ekki mjög gagnlegt,“ sagði Soirot. Hingað til hefur AstraZeneca rætt mjög opinskátt um þau vandkvæði sem hafa komið upp í rannsókninni. 

Rannsókn AstraZeneca er fyrsta þriðja stigs rannsóknin á COVID-19-bóluefni sem …
Rannsókn AstraZeneca er fyrsta þriðja stigs rannsóknin á COVID-19-bóluefni sem vitað er til að hafi þurft að gera hlé á vegna veikinda. Slík hlé eru þó algeng. AFP

Óháðir sérfræðingar hjálpa við ákvarðanatöku

Í dag sendi fyrirtækið frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að því yrði leiðbeint af nefnd óháðra sérfræðinga við að ákvarða hvenær það gæti haldið rannsókninni áfram „svo við getum haldið vinnu okkar áfram eins fljótt og hægt er og komið bóluefninu vítt og breitt um heiminn, án hagnaðar, á meðan þessum heimsfaraldri stendur.“

Rannsókn AstraZeneca er fyrsta þriðja stigs rannsóknin á COVID-19-bóluefni sem vitað er til að hafi þurft að gera hlé á vegna veikinda. Slík hlé eru þó algeng. 

„Þótt þetta sé ekki gleðiefni þarf þetta ekki að koma stór­kost­lega á óvart. Ég man ekki eft­ir einu ein­asta til­felli við þróun á bólu­efni þar sem ekki hef­ur komið bak­slag. Við þá vinnu eru menn að sækja sér nýja þekk­ingu og til þess þarf að fálma í rökkr­inu. Þetta er flókið mál,“ sagði Kári Stef­áns­son, for­stjóri Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar, í samtali við mbl.is um málið fyrr í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert