Bóluefni sé enn mögulegt á þessu ári

Fyrirtækið tilkynnti á þriðjudag að það hefði gert hlé á …
Fyrirtækið tilkynnti á þriðjudag að það hefði gert hlé á prófunum. AFP

Lyfjarisinn AstraZeneca segir að enn sé möguleiki á að bóluefni við kórónuveirunni geti verið fáanlegt fyrir lok þessa árs, þrátt fyrir að hlé hafi verið gert á prófunum á efninu.

„Við gætum enn verið með bóluefni í höndunum við lok þessa árs, eða snemma á næsta ári,“ sagði framkvæmdastjórinn Pascal Soriot á blaðamannafundi í dag.

Upplifði einkenni hryggbólgusjúkdóms

Fyrirtækið tilkynnti á þriðjudag að það hefði gert hlé á alþjóðleg­um rann­sókn­um sín­um á bólu­efn­inu eft­ir að ein af þeim sem tók þátt í próf­un­um veikt­ist. 

Kon­an sem veikt­ist upp­lifði ein­kenni sjald­gæfs en al­var­legs hrygg­bólgu­sjúk­dóms sem kall­ast á ensku transverse myelit­is, að því er fram­kvæmda­stjóri AstraZeneca, Pascal Soriot, greindi frá á einkasíma­fundi með fjár­fest­um í gærmorg­un. Búist var þá við að hún yrði útskrifuð af sjúkrahúsi í gær.

Tilvonandi bóluefni AstraZeneca er eitt níu efna í heiminum sem nú eru á þriðja stigi prófana.

Fyrirtækið hóf prófanir á 30 þúsund sjálfboðaliðum víðs vegar um Bandaríkin í lok ágúst. Einnig taka smærri hópar þátt í Brasilíu og á öðrum stöðum í Suður-Ameríku.

Íslendingar fengju efnið

Útlit er fyr­ir að bólu­efni AstraZeneca verði það sem stend­ur Íslend­ing­um til boða, tak­ist að fá markaðsleyfi fyr­ir bólu­efnið að próf­un­um lokn­um. 

Eins og áður hef­ur komið fram í frétt­um mbl.is og Morg­un­blaðsins hafa Sví­ar heim­ild til þess að framselja okk­ur bólu­efni úr Evrópusambandinu, við ástand eins og skap­ast hef­ur vegna kór­ónu­veirufar­ald­ur­ins. Yrði það gert á grund­velli samn­inga sem ís­lensk stjórn­völd hafa gert við Svíþjóð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert