Hvernig Ísland er að bráðna

Lagt er í leiðangur upp á Breiðamerkurjökul.
Lagt er í leiðangur upp á Breiðamerkurjökul. mbl.is/RAX

Ísland er land sem var mótað af eldfjöllum og ís, og þar sem örin eftir hvort tveggja sjást enn ljóslifandi. Á þessum orðum hefst ítarleg umfjöllun bresku fréttastofunnar Sky News sem birt var í dag, en hún ber yfirskriftina: „Hvernig Ísland er að bráðna“.

Vísað er til þess að jökulís á Íslandi sé að hverfa. „Og hann er að hverfa á hraða sem heimurinn þarf að hafa áhyggjur af.“

Lagt er í leiðangur á Breiðamerkurjökul og rætt við Hauk Einarsson leiðsögumann og Snævar Guðmundsson jöklafræðing. Bent er á að aska úr Eyjafjallajökli þeki ísinn og flýti þannig fyrir bráðnun hans með því að draga í sig sólarljós.

Minnkar með hverri heimsókn

Hnattræn hlýnun sé þó meginorsökin.

„Þetta er einföld eðlisfræði,“ segir Snævar. „Farðu og kauptu ís og sjáðu hvað gerist þegar þú tekur hann með í hitann. Hann bráðnar.“

Aðspurður segir hann það hrikalegt að fylgjast með því hvernig jökullinn hafi minnkað með hverri heimsókninni.

„Það kemur á óvart hversu hratt þetta á sér stað. Þú myndir ekki trúa því hversu þykkur ísinn hlýtur að hafa verið fyrir hundrað eða hundrað og þrjátíu árum. Það er svo erfitt að trúa því, að akkúrat þar sem við stöndum, þá var yfirborð íssins um 250 metrum hærra en það er núna. Það er svo skrýtið að hugsa um það. Þú venst því aldrei.“

Umfjöllun Sky News

mbl.is

Bloggað um fréttina