Undirbúa sæstreng til Írlands

Frá landtökustað Danice-sæstrengsins í Landeyjum.
Frá landtökustað Danice-sæstrengsins í Landeyjum.

Samþykkt var á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun að tryggja fjármögnun nýs fjarskiptasæstreng til Írlands (IRIS). Áætlaður stofnkostnaður er um 50 milljónir evra (8,3 ma.kr.) en fyrirvari er um að Alþingi samþykki fjárveitinguna. Stefnt er að því að taka strenginn í gagnið fyrir lok árs 2022 eða árið 2023 hið seinasta, að því er fram kemur í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Tveir sæstrengir tengja Ísland við Evrópu. Annar strengurinn nefnist FARICE-1 og liggur frá Seyðisfirði til norðurhluta Skotlands með viðkomu í Færeyjum. Hinn nefnist DANICE og liggur frá Landeyjum á Íslandi til Blåbjerg í Danmörku.

Í fjarskiptastefnu Íslands fyrir tímabilið 2019-2033, sem samþykkt var á Alþingi í fyrra, segir að þrír virkir fjarskiptasæstrengir skuli tengja Ísland við Evrópu á hverjum tíma en fyrir því eru einkum öryggissjónarmið. Undirbúningur hófst með samningi ríkisins við fyrirtækið Farice ehf. í árslok 2018.

„Það er nauðsynlegt að endurnýja kerfið tímanlega þar sem Farice-strengurinn er kominn til ára sinna. Að auki er skjót uppfærsla útlandasambanda jafnvel enn brýnni nú þegar samgöngur í heiminum eru takmarkaðar um ófyrirséðan tíma vegna Covid 19,“ er haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í tilkynningunni. Til lengri tíma litið sé ennfremur mikilvægt út frá viðskiptasjónarmiðum og samkeppnishæfni, að tryggja fullnægjandi tengingar við umheiminn sem þjónað geta kröfuhörðum og eftirsóknarverðum viðskiptavinum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert