Microsoft rannsakar neðansjávargagnaver

Eitt helsta markmið tilraunarinnar var að kanna mismunandi leiðir til …
Eitt helsta markmið tilraunarinnar var að kanna mismunandi leiðir til að geyma gögn á umhverfisvænni máta. AFP

Fyrir tveimur árum sökkti bandaríski tæknirisinn Microsoft gagnaveri við strendur Orkneyja í forvitnilegri tilraun.

Gagnaverið hefur nú verið veitt upp úr djúpinu, og starfsmenn Microsoft rannsaka nú hvernig gagnaverið virkaði og hvort hægt sé að draga lærdóm af tilrauninni.

BBC greinir frá.

Ein helsta niðurstaða tilraunarinnar var sú að aðeins átta af þeim 855 netþjónum sem voru um borð í sívalningslaga gagnaverstanknum biluðu, sem er talsvert minna en í hefðbundnu gagnaveri.

Bilunartíðni netþjónanna var, að sögn verkefnastjórans Ben Cutler, aðeins enn áttundi af bilunartíðni netþjóna í gagnaverum á landi.

Sérfræðingar telja að ástæðan fyrir þessu gæti tengst því að ekki voru manneskjur um borð, og því voru þjónarnir umluktir köfnunarefni, en ekki súrefni.

Raunhæfur og spennandi möguleiki

Eitt helsta markmið tilraunarinnar var að kanna mismunandi leiðir til að geyma gögn á umhverfisvænni máta. Gagnaver eru gríðarlega orkufrek, og með mikilli aukningu ganga sem geymd eru á hinu svokallaða skýi (e. cloud) er þörf á að finna umhverfisvænni leiðir til að geyma þau.

Eins og áður kom fram var gangaverinu sökkt við strendur Orkneyja, en sú staðsetning var valin vegna hitastigs á þeim slóðum. Kaldur sjórinn er líklegur til að draga úr kostnaði er kemur að hitastýringu í gagnaverinu.

Einnig kemur öll orka í Orkneyjum frá endurnýjanlegum orkugjöfum á borð við vind- og sólarorku

Gagnaver eru gríðarlega orkumikil.
Gagnaver eru gríðarlega orkumikil.

David Ross, ráðgjafi í gagnversiðnaðinum, segir í samtali við BBC að neðansjávargangaver séu raunhæfur og spennandi möguleiki. Hann segir að slík gagnaver geti verið öruggari en hefðbundin gangaver, sérstaklega fyrir fyrirtæki sem búa við ógn af náttúruhamförum eð hryðjuverkum.

Ekki er víst hvort Microsoft muni hefja notkun neðansjávargagnavera í kjölfar tilraunarinnar, en verkefnastjóri tilraunarinnar í Orkneyjum telur að hugmyndin hafi sannað sig.

“Þetta er löngu hætt að vera bara vísindatilraun, segir Cutler við BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert