Ákærð fyrir manndráp með sjálfkeyrandi bíl

Bifreiðin sem um ræðir var notuð í prófunum leigubílaþjónustunnar Uber.
Bifreiðin sem um ræðir var notuð í prófunum leigubílaþjónustunnar Uber. AFP

Kona sem sat undir stýri sjálfkeyrandi bifreiðar hefur verið ákærð fyrir manndráp af gáleysi eftir að bifreiðin ók á gangandi vegfarenda með þeim afleiðingum að hann lést. Slysið átti sér stað árið 2018 og var fyrsta sinnar tegundar í Bandaríkjunum.

Bifreiðin sem um ræðir var notuð í þjónustu Uber-leigubílaþjónustunnar og átti ákærða að hafa augun með bifreiðinni, en eins og kemur fram í frétt BBC um málið á konan að hafa verið að horfa á sjónvarpsþáttinn The Voice í síma sínum og því fór sem fór.

Uber hafi ekki gert neitt saknæmt

Dómstóll í Arizona-ríki í Bandaríkjunum komst að þeirri niðusrtöðu að Uber hafi sjálft ekki gert neitt sem talist gæti saknæmt. Hins vegar er konan sem sat undir stýri sögð bera ábyrgð á slysinu þar sem hún hefði getað komið í veg fyrir það, hefði hún haft athyglina við aksturinn.

Konan lýsti yfir sakleysi sínu við fyrirtöku málsins og bíður nú þess að dómur verði kveðinn upp.

Slysið var fyrsta sinnar tegundar í Bandaríkjunum og hætti Uber öllum prófunum sínum með sjálfkeyrandi bifreiðar strax í kjölfarið.

mbl.is