Nær milljarður í rannsóknir á kæfisvefni

Þórarinn Gíslason lungnalæknir og prófessor.
Þórarinn Gíslason lungnalæknir og prófessor. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Rannsóknarhópur undir stjórn Þórarins Gíslasonar, prófessors við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknis svefndeildar Landspítalans, og Bryndísar Benediktsdóttur, prófessors við læknadeild HÍ og læknis, hefur fengið 200 milljóna króna styrk frá bandarísku heilbrigðisstofnuninni (NIH) til nýrrar rannsóknar á kæfisvefni.

Að sögn Þórarins er mikil samkeppni um styrki frá NIH. „Umsóknir eru mjög margar en aðeins örfáar fá styrki,“ segir hann. Íslensk erfðagreining hafi verið leiðandi í erfðarannsóknum í heiminum í tvo áratugi og það greiði götuna. Einnig samvinna við NOX Medical, sem sé leiðandi í þróun svefngreiningarbúnaðar á heimsvísu.

Samstarf teymis Þórarins og vísindamanna í svefnrannsóknadeild háskólasjúkrahússins í Fíladelfíu í Bandaríkjunum (PENN) hefur varað í tvo áratugi og frá aldamótum hefur íslenski hópurinn fengið tæplega milljarð í styrk frá NIH, að því er fram kemur í umfjöllun um styrkveitinguna og svefnrannsóknir í Morgunblaðinu í dag.

Í rannsókninni felst hvort greina megi kæfisvefn með blóðsýni og hvort segja megi til um fylgikvilla sjúkdómsins. Þórarinn segir að vísbendingar séu um að fyrirhugaðar mælingar geti til dæmis sagt fyrir um hjarta- og æðasjúkdóma.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: