Óljóst með tengsl D-vítamíns og COVID

Ljósmynd / Getty Images

Vissar rannsóknir benda til þess að samband sé á milli D-vítamínskorts og hversu alvarlegur sjúkdómurinn COVID-19 getur orðið. Hins vegar er ekki ljóst hvort þetta sé raunverulega vegna skortsins eða vegna annarra þátta sem tengjast bæði verri sjúkdómi og skorti á D-vítamíni (til dæmis offita).

Nokkrar rannsóknir eru þó í framkvæmd núna þar sem markmiðið er að svara þessum mikilvægu spurningum á markvissari hátt segir í svari Jóns Magnússonar Jóhannessonar, deildarlæknis á Landspítalanum, á Vísindavef Háskóla Íslands. Spurningin var hvort D-vítamín hefði áhrif á COVID-19?

D vítamín er nauðsynlegt fyrir þá sem lifa á norðlægum …
D vítamín er nauðsynlegt fyrir þá sem lifa á norðlægum slóðum og fá litla sól.

Meðal fjölmargra þátta sem brenna á vísindamönnum í tengslum við COVID-19 (e. coronavirus disease 2019) er áhrif næringarástands á horfur sjúkdómsins. Þar hefur D-vítamín verið ofarlega á baugi en margar spurningar hafa vaknað í þessu samhengi:

  • Veldur D-vítamínskortur verri horfum hjá sjúklingum með COVID-19?
  • Getur D-vítamín (eða viðeigandi magn þess í líkama) minnkað líkur á COVID-19?
  • Getur gjöf D-vítamíns til sjúklinga með COVID-19 haft áhrif á gang sjúkdómsins?

„Enn sem komið er liggja ekki fyrir nægar upplýsingar til að geta svarað þessum spurningum áreiðanlega. Hins vegar er þetta virkt rannsóknarefni og gefa vissar rannsóknir vísbendingar um verndandi áhrif D-vítamíns gegn ýmsum sjúkdómum, þar á meðal COVID-19.

D-vítamín er eitt af nokkrum vítamínum sem við þurfum í snefilmagni til að viðhalda eðlilegri líkamsstarfsemi. D-vítamín er fituleysanlegt og fellur því í sama flokk og A-, E- og K-vítamín. Ólíkt öðrum vítamínum í þessum flokki fáum við D-vítamín ekki aðeins úr fæðu (til dæmis úr feitum fiski) heldur nær líkaminn einnig að mynda það með hjálp sólarljóss. Í raun er talið að stærsti hluti þess D-vítamíns sem líkaminn notar, sé það sem myndast í húðinni.

Viss gerð útfjólublárra geisla (UV-B) stuðlar að myndun D-vítamíns úr forveraefni í húðinni. Í kjölfarið myndast virkt form D-vítamíns með aðstoð ensíma sem finnast helst í lifur og nýrum. Þegar búið er að virkja D-vítamínið fer það í raun til allra fruma líkamans. Helsta hlutverk D-vítamíns er að stýra kalkbúskapi líkamans, meðal annars með því að stuðla að aukinni upptöku kalks úr meltingarvegi. Með því að viðhalda eðlilegu magni kalks í líkamanum kemur D-vítamín að hluta í veg fyrir niðurbrot á beinvef, sem stuðlar að almennri beinvernd.

Í ljósi þess hversu mikilvægt sólarljós er fyrir myndun D-vítamíns er skortur á vítamíninu misalgengur eftir breiddargráðum á jörðinni. Á heimsvísu er skortur á D-vítamíni almennt algengur og líklegast algengasti vítamínskorturinn. Því minni sem útsetning fyrir sólarljósi er á tilteknu svæði, því algengari er skortur á D-vítamíni. Einnig auka vissir þættir líkur á skorti, en þar má helst nefna aldur (ungbörn og yfir 60 ára), húðlitur (dekkri húðlitur tengist frekar skorti), lélegt næringarástand, offita, langvinnir nýrna- og lifrarsjúkdómar og lítil útivera

Á Íslandi, líkt og annars staðar, er D-vítamínskortur misalgengur eftir þjóðfélagshópum. Rannsóknir gefa til kynna að 20-30% almennings hafi ekki nægilegt D-vítamín í líkamanum - en þessi tala er mun hærri meðal viðkvæmra hópa, samanber áhættuþætti sem nefndir eru hér að ofan. Niðurstöður nýlegrar rannsóknar Berglindar Gunnarsdóttur og félaga, bendir til þess að hjá meirihluta barna virðist D-vítamín vera undir viðmiðunarmörkum (mælt í blóði); hins vegar er aðeins hluti þessara barna með marktækan skort. Líklegt er að ómarktækt magn D-vítamíns myndist í húðinni yfir vetrarmánuðina samhliða því að inntaka á D-vítamínríkri fæðu er ekki nægileg til að vega upp á móti þessari vanmyndun. Því er öllum hérlendis ráðlagt að taka inn D-vítamín til að tryggja viðunandi D-vítamínbirgðir. Ráðlagðir dagskammtar eru 400 einingar fyrir börn yngri en 10 ára, 600 einingar fyrir 10-70 ára en 800 einingar fyrir 71 árs og yfir. Hámarksskammtur er 4000 einingar en flestar töflur með D-vítamíni innihalda 1000 einingar. Til einföldunar er því gjarnan ráðlagt að allir einstaklingar 10 ára og eldri taki daglega inn 1000 einingar af D-vítamíni.

Hvernig tengist D-vítamín þá sýkingum? Með vaxandi þekkingu hefur komið í ljós að D-vítamín hefur mun flóknara hlutverk en talið var í fyrstu. Eitt kerfi sem D-vítamín tekur þátt í er ónæmiskerfið. D-vítamín getur bæði stuðlað að skilvirku fyrsta ónæmissvari og mildað síðkomið ónæmissvar. Þannig er auðvelt að sjá hvaða þýðingu D-vítamín (og skortur á því) gæti haft í margvíslegum sýkingum - hins vegar hefur reynst flóknara að staðfesta þetta með rannsóknum. D-vítamín hefur meðal annars mikið verið rannsakað í tengslum við efri öndunarfærasýkingar en enn eru aðeins vísbendingar til staðar um gagnsemi þess - helst virðast gögn benda til þess að viðunandi D-vítamín í líkamanum geti minnkað algengi þessara sýkinga.

Hingað til hefur engin slembiröðuð stýrð rannsókn (e. randomized controlled trial) verið birt sem sýnir fram á gagnsemi þess að gefa D-vítamín ef einstaklingur greinist með COVID-19. Sama má segja um inntöku D-vítamíns og það að fyrirbyggja sjúkdóminn COVID-19. Vissar rannsóknir benda til þess að samband sé á milli D-vítamínskorts og hversu alvarlegur sjúkdómurinn COVID-19 getur orðið; hins vegar er ekki ljóst hvort þetta sé raunverulega vegna skortsins eða vegna annarra þátta sem tengjast bæði verri sjúkdómi og skorti á D-vítamíni (til dæmis offita). Nokkrar rannsóknir eru þó í framkvæmd núna þar sem markmiðið er að svara þessum mikilvægu spurningum á markvissari hátt,“ segir í svari Jóns Magnúsar á Vísindavef HÍ.

mbl.is