Talsímakerfið sónar út

Það er af sem áður var.
Það er af sem áður var. mbl.is/Ásdís

Á morgun, 1. október, mun Síminn hf. hrinda af stað fyrsta áfanga í lokun á hinu gamla rásaskipta talsímakerfi. Áætlanir Símans hf. gera ráð fyrir því að kerfið verði að fullu niðurlagt á síðasta ársfjórðungi 2021.

Þetta kemur fram á vef Póst- og fjarskiptastofnunar. 

Þar segir að fjarskiptakerfi sem byggist á hliðrænni tækni (e. analogue) hafi á umliðnum árum verið að víkja fyrir stafrænum netum (e. digital) sem þykja hagkvæmari í rekstri og veita neytendum betri þjónustuupplifun.

„Með árunum hefur það reynst vera kostnaðarsamt og tæknilega flókið að viðhalda talsímakerfinu, en hætt er að framleiða ýmsan búnað sem styður við kerfið. Jafnframt krefjast slík net mun plássfrekari aðstöðu (húsnæði) en stafræn fjarskiptanet og í því felst jafnframt aukinn kostnaður, óhagræði og umhverfisspor.

Sú tækniumbreyting sem felst í því að hverfa frá hliðrænum fjarskiptanetum yfir í stafræn fjarskiptanet er því óumflýjanleg og hefur sú þróun átt sér stað um allan heim. Mörg ríki Evrópu hafa annaðhvort lokið þessari umbreytingu eða eru langt komin með hana. Má þar nefna ríki á borð við Eistland, Holland, Noreg og Sviss. Þessi ríki eiga það sammerkt að útbreiðsla háhraðaneta er almennt góð, hvort sem um er að ræða fastanetstengingar eða farnetssambönd. Netrekendur talsímakerfa í öðrum ríkjum álfunnar eru flestir með tímasettar áætlanir um lokun kerfanna á allra næstu árum,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is