Berjast gegn falsfréttum á TikTok

Staðreyndavakt AFP mun ná til efnis á TikTok frá nokkrum …
Staðreyndavakt AFP mun ná til efnis á TikTok frá nokkrum löndum. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Franska fréttaveitan AFP er komin samstarf við samfélagsmiðilinn TikTok um staðreyndaeftirlit (e. fact-checking) á miðlinum. Frá þessu var greint í morgun.

Samkvæmt samkomulaginu mun staðreyndavakt AFP sannreyna myndbönd sem kunna að innihalda ósannar eða misvísandi fullyrðingar í nokkrum löndum, þar á meðal Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Filippseyjum, Indónesíu og Pakistan. Með því getur TikTok fjarlægt slík myndbönd.

„AFP er ánægt með að sérfræðingar okkar geti lagt hönd á plóg í þessu spennandi verkefni með TikTok,“ segir Phil Chetwynd, alþjóðlegur fréttastjóri AFP. „Það er algert forgangsatriði í fréttaflutningi AFP að yngri notendur fái fréttaflutning byggðan á staðreyndum í gegnum samfélagsmiðla sína.“

AFP fær að sögn fullt ritstjórnarlegt frelsi til að sannreyna það efni sem kemur til skoðunar. Fréttaveitan er þegar í samstarfi við Facebook um slíka vöktun. 90 blaðamenn starfa við að sannreyna fréttir á Facebook á 16 tungumálum í 80 löndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert