Gen Neanderdalsmanna valdi skæðari Covid-sjúkdómi

Einhvern veginn svona gera menn sér í hugarlund að Neanderdalsmaðurinn, …
Einhvern veginn svona gera menn sér í hugarlund að Neanderdalsmaðurinn, sem dó út fyrir um 28.000 árum, hafi litið út.

Fólk með leifar af erfðamengi Neanderdalsmanna í genamengi sínu á í meiri hættu á að verða fyrir alvarlegum og langvinnum afleiðingum greinist það með kórónuveiruna.

Þetta er niðurstaða rannsóknar vísindamanna við Karólínska sjúkrahúsið í Svíþjóð og Max Planck-stofnunina í Þýskalandi sem birt er í vísindatímaritinu Nature.

Rannsókn vísindamannanna nær til 3.200 einstaklinga sem greindust með veiruna og lögðust inn á sjúkrahús vegna þessa. Er niðurstaðan sú að fólk með tiltekinn genaklasa sem rekja má til Neanderdalsmanna sé þrefalt líklegra en aðrir til að veikjast alvarlega af veirunni og glíma við langvarandi eftirköst.

Um 16% Evrópubúa og helmingur Suður-Asíubúa bera erfðaklasann sem um ræðir en hann má rekja um 50.000 ár aftur í tímann. „Ég datt næstum úr stólnum þegar við sáum að genaklasinn er einmitt sá sami og í erfðamengi Neanderdalsmannsins,“ segir Hugo Zeberg, prófessor við Karólínska í samtali við Guardian.

Óvíst hvaða gen skiptir sköpum

Zeberg og meðhöfundur rannsóknarinnar, Svante Pääbo hjá Max Plack-stofnuninni, telja að umrædd Neanderdalsgen hafi haldið velli í genamengi nútímammannsins þar sem þau hafi einhvern tímann verið gagnleg, hugsanlega til að berjast við veirusýkingar. Aðeins nú, þegar heimurinn stendur frammi fyrir nýrri sýkingu, hafi veikleikar þeirra komið í ljós.

Zeberg segir þó að óljóst sé hvernig genin get haft áhrif á Covid-19. Eitt þeirra hefur áhrif á ónæmisviðbrögð og annað er tengt ferlinu sem veiran notar til að ráðast á frumur mannslíkamans. „Við erum að reyna að finna nákvæmlega hvaða gen leikur lykilhlutverk en ef ég á að vera hreinskilinn vitum við ekki hvert þeirra skiptir sköpum þegar kemur að Covid-19.“

Mark Maslin, prófessor við UCL og höfundur bókarinnar Vagga mannkyns (The Cradle og Humanity), varar þó við því að einfalda um of ástæður og áhrif heimsfaraldursins. „Covid-19 er flókinn sjúkdómur og alvarleiki hans hefur verið tengdur við aldur, kyn, kynþætti, offitu, heilsu og fleira,“ segir hann.

„Þessi rannsókn tengir gen frá Neanderdalsmönnum við auknar líkur á innlögn á spítala og fleiri vandamál. En eftir því sem Covid-19 dreifist um heiminn er ljóst að ólíkir hópar verða fyrir ólíkum áhrifum, og margir þeirra bera ekki Neanderdalsgen.“

mbl.is