Læknirinn reyndist faðir 17 barna

Thinkstock/Getty Images

Hollenskur kvensjúkdómalæknir er faðir 17 barna kvenna sem töldu sig hafa fengið sæði frá óþekktum sæðisgjafa. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá sjúkrahúsinu en læknirinn sem um ræðir er látinn.

Jan Wildschut starfaði frá 1981 til 1993 á kvennadeild Sophia-sjúkrahússins í borginni Zwolle. Alls er vitað um 17 börn sem eru getin með sæði læknisins sem annaðist konurnar vegna sæðisgjafar. Ekki er vitað hvort fleiri börn hafi verið getin með sæði læknisins á meðan hann starfaði þar. 

Gjafasæðismeðferðir henta pörum þar sem karlmaðurinn hefur engar sáðfrumur, samkynja pörum og einhleypum konum.

Stjórnendur sjúkrahússins fengu upplýsingar um málið í fyrra og ákváðu, í samráði við fjölskyldu læknisins og barnanna, að gera málið opinbert. Er það framlag þeirra í að auka gagnsæi þegar kemur að málum tengdum gjafasæði. 

Dagblaðið De Stentor segir að málið hafi komið upp á yfirborðið þegar eitt barnanna uppgötvaði tengsl lífsýnis við frænku Wildschut sem lést árið 2009.

„Okkur grunaði aldrei að hann gæti verið gefandinn,“ segir foreldri sem óskaði nafnleyndar í viðtali við blaðið.

Hollensk heilbrigðisyfirvöld ætla ekki að rannsaka málið frekar þar sem engin lög né reglugerðir voru í gildi varðandi frjósemismeðferðir á þessum tíma.

Í fyrra var upplýst um lækni í Rotterdam sem reyndist vera faðir að minnsta kosti 49 barna kvenna sem voru í meðferð hjá honum vegna ófrjósemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert