Nóbelsverðlaun fyrir erfðatækni

Tvær vísindakonur, Emmanuelle Charpentier frá Frakklandi og Jennifer Doudna frá Bandaríkjunum, hljóta Nóbelsverðlaunin í efnafræði í ár. Verðlaunin hljóta þær fyrir að hafa fundið upp erfðatækni sem nefnist CRISPR-Cas9 og var uppgötvuð árið 2011. 

Tæknin byggist á að koma ensíminu Cas9 inn í frumur, klippa bút af erfðaefni út og jafnvel koma síðan öðrum bút fyrir í staðinn.

Í tilkynningu nóbelsnefndarinnar segir að með þessari tækni geti rannsakendur breytt DNA dýra, jurta og örvera með gríðarlegri nákvæmni. Þessi tækni hefur haft byltingarkennd áhrif á lífvísindi og sé nýtt í nýjum meðferðum við krabbameini. Með þessari tækni verður jafnvel hægt að láta drauma rætast um að lækna erfðasjúkdóma sem áður voru ólæknandi.

 Charpentier og Doudna eru sjötta og sjöunda konan sem hljóta Nóbelsverðlaunin í efnafræði. Charpentier uppgötvaði við bakteríurannsóknir óþekkta sameind sem afvopnar veiruna með því að klippa burt erfðaefni hennar. Eftir að hafa birt rannsóknir sínar árið 2011 starfaði Charpentier með Doudna að endurskapa erfðaskærin á þann hátt að það væri auðveldara að vinna með þau. 

CRISPR/Cas9 tæknin hefur þegar komið að góðum notum við matvælaframleiðslu á þann hátt að bæta seiglu korns og annarra afurða þannig að það þoli betur þurrka og ásókn skordýra. 

Emmanuelle Charpentier og Jennifer Doudna eru handhafar Nóbelsverðlaunanna í efnafræði …
Emmanuelle Charpentier og Jennifer Doudna eru handhafar Nóbelsverðlaunanna í efnafræði í ár. AFP
mbl.is