Apple afhjúpar nýjan 5G síma

Bylgja iPhone-kaupa í kjölfar afhjúpunar nýja símans gæti orðið á …
Bylgja iPhone-kaupa í kjölfar afhjúpunar nýja símans gæti orðið á við sölu símanna árið 2014, þegar Apple kynnti iPhone með stærri skjá en áður og seldi metfjölda síma. AFP

Apple mun á morgun, þriðjudag, afhjúpa iPhone með 5G tengingu sem hefur ýtt undir himinháar væntingar fjárfesta til verðmætasta fyrirtækis heims jafnvel þó óvissa sé enn til staðar um það hversu gagnleg 5G tæknin sé neytendum. Wall Street Journal greinir frá þessu.

Hin nýja tækni, sem gefur fyrirheit um internethraða sem er umtalsvert hraðari en sá sem stendur flestum snjallsímanotendum til boða, hefur vakið væntingar um að iPhone notendur sjái hana sem ástæðu til að uppfæra síma sína.

Áhugi neytenda óljós

Bylgja iPhone-kaupa í kjölfar afhjúpunar nýja símans gæti orðið á við sölu símanna árið 2014, þegar Apple kynnti iPhone með stærri skjá en áður og seldi metfjölda síma, eða árið 2017 þegar Apple kynnti dýrari iPhone sem eru færir um að greina andlit. Sala slíkra síma leiddi til mettekjuöflunar. 

Sumir fjárfestar vona jafnvel að tilkoma 5G símans muni leiða til aukningar í sölu sem verði sambærileg þeirri aukningu sem varð á fyrstu árum iPhone þegar hver síminn á fætur öðrum kynnti til sögunnar tækninýjungar. 

Hlutabréf í Apple hafa hækkað um meira en 50% á þessu ári og markaðsvirði fyrirtækisins aukist verulega. Það er þó enn óljóst hversu mikinn áhuga viðskiptavinir fyrirtækisins hafa á hraðari nettengingu, sérstaklega í heimsfaraldri þegar milljónir manna vinna heima og nota almennt nettengingar heima fyrir. Kórónuveiran seinkaði framleiðslu símans sem nú á að kynna en nýr iPhone hefur verið kynntur í september hvers árs síðan árið 2012. 

mbl.is