Nýr iPhone 12 með 5G kynntur

Apple kynnti rétt í þessu nýja kynslóð iPhone snjallsímanna, iPhone 12 nánar tiltekið. Helsta nýmælið er sjálfsagt að sú kynslóð er með 5G, næstu kynslóð farsímaneta, sem gefa kost á margfalt meiri hraða á gagnaflutningi en áður. Auk þess má í símunum finna árvissar framfarir í örgjörva, vinnsluhraða og myndavél.

iPhone 12 kemur í fleiri gerðum en hingað til. Í fyrsta lagi óbreyttur iPhone 12, þá tvær stærðir af Pro útgáfu símans, og loks ný smærri gerð símans, iPhone 12 Mini, sem er nokkru ódýrari og hentar handsmáum og börnum.

Allir símarnir eru með nýja gerð OLED-skjás, svo mynddílarnir eru um tvöfalt fleiri en á iPhone 11, skjárinn með meiri litadýpt og er jafnframt mun bjartari. Þessi nýi skjár er þar að auki með nýjan varnarhjúp, sem gerir glerið um fjórfalt sterkara en í fyrri gerðum.

Flestir eru þó líklegast spenntastir fyrir 5G tækninni, sem er óðum verið að taka í gagnið um heim allan, þar á meðal á Íslandi. Hraðinn er mismikill eftir símkerfum, en jafnvel hægasta gerðin er margföld á við það, sem fólk hefur áttt að venjast.

5G tæknin mun án vafa leiða til margs konar nýrra appa og þjónustu, sem aftur mun reyna á símana. Í iPhone er því nýr sex kjarna örgjörvi, A14 Bionic, sem er helmingi hraðvirkari en í fyrri kynslóð símans. Það tekur einnig til fjögurra kjarna myndgjörvans, sem leikjaframleiðendur munu vafalaust notfæra sér út í ystu æsar.

Í iPhone 12 er að finna tvær myndavélar, en í Pro útgáfunum eru þær fjórar. Linsurnar eru betri en fyrr og ljósnemarnir stærri, en Apple leggur mikla áherslu á að hugbúnaðarhliðin sé mun fullkomnari en áður, sem auki myndgæði, geri kleift að taka góðar myndir við ömurleg birtuskilyrði og þar fram eftir götum. Ýmsar nýjungar eru einnig við töku hreyfimynda, en þar ber helst að nefna að nú er Dolby Vision í Pro símunum.

Að auki er Lidar-skimi í nýju Pro símunum, en það er dýptarskynjari, sem býr til þrívíddarmyn af umhverfinu, sem nota má til þess að bæta myndvinnslu, við aukveruleika (AR), leiki og gerð þrívíddarmynda eða annars þess, sem appframleiðendur láta sig dreyma um.

Það nýmæli er einnig í iPhone 12, að í honum eru seglar, sem nota má til þess að smella hleðslutæki á hann, hlífum eða veskjum, á haldara í bílnum og fleira. iPhone 12 línan kemur í fleiri litum og áferðum en verið hefur til þessa.

Kórónuveiran hefur sett strik í reikninginn hjá Apple, en nýr iPhone hefur ekki áður verið kynntur svo seint á árinu, sem skiptir máli fyriir fyrirtækið, sem byggir mjög á sölu fyrir jólin. Ástæðan er sú að erfiðara hefur reynst að koma framleiðslu og flutningi á markað jafnskjótt af stað og vanalega vegna heimsfaraldursins. Þeir koma því ekki allir á markað á sama tíma. Fyrst koma iPhone 12 og iPhone 12 Pro síðar í þessum mánuði, svo iPhone 12 Pro Max og iPhone 12 Mini um miðjan nóvember.

Verðið verður hið sama og samsvarandi iPhone 11.

Nýi iPhone 12 fæst í ýmsum litum, þar á meðal …
Nýi iPhone 12 fæst í ýmsum litum, þar á meðal Kyrrahafsbláum.
mbl.is