Bóluefni jafnvel fyrir árslok

Anthony Fauci, sóttvarnasérfræðingur ríkisstjórnarinnar.
Anthony Fauci, sóttvarnasérfræðingur ríkisstjórnarinnar. AFP

Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, segir að svo geti farið að bóluefni við Covid-19 verði fáanlegt í Bandaríkjunum fyrir árslok ef sannað er að það sé öruggt og árangursríkt. Þetta kom fram í máli Faucis í viðtali við Andrew Marr á BBC í dag.

Fauci segir að í fyrstu verði bóluefni aðeins í boði fyrir þá hópa sem eru í forgangi, það er þá sem eru í áhættuhópi og heilbrigðisstarfsmenn, og einhverjir mánuðir ársins 2021 muni líða áður en það verður sett á almennan markað.

Donald Trump og Anthony Fauci.
Donald Trump og Anthony Fauci. AFP

Hann segir að hafa verði í huga að bóluefni komi ekki í stað almennra heilbrigðisaðgerða og varúðarráðstafana við að vernda fólk frá því að smitast af kórónuveirunni. Þannig verði það í töluvert langan tíma.

Fauci segir að Donald Trump Bandaríkjaforseti fylgi ekki ráðleggingum vísindamanna og ekki sé rétt hjá honum að halda því fram að hann sé ónæmur fyrir veirunni. Það geti komið honum í koll að faðma fólk og kyssa líkt og hann hefur gert að undanförnu. 

Hér er hægt að hlusta á viðtalið á BBC

mbl.is