Heimasíminn lifir enn á um helmingi heimila

mbl.is/Arnaldur

Um eitt af hverjum þremur heimilum á Íslandi notar nettengingar heimilisins fyrir myndsímtöl og fjarvinnu svo sem í gegnum Skype, Zoom og Teams í frekar miklum eða mjög miklum mæli. Konur virðast nota þessa tækni meira en karlar eða um 37% kvenna á móti 31% karla. Þetta er meðal þess sem lesa má út úr niðurstöðum neytendakönnunar á fjarskiptamarkaði, sem Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) fékk MMR til að gera um seinustu mánaðamót meðal landsmanna.

Þrátt fyrir mikla útbreiðslu farneta kemur fram í umfjöllun PFS að athygli veki hve hátt hlutfall heimila kaupir nettengingu og aðra fjarskiptaþjónustu sem veitt er yfir fastlínu í ýmiss konar pakkalausnum. 71% heimila segjast kaupa netþjónustuna í pakka með annarri þjónustu, s.s. heimasíma, farsíma, sjónvarpsáskrift o.fl., sem greitt er fyrir með einu áskriftargjaldi. Allt að 70% heimila kaupa áskrift af sjónvarps- og/eða myndstreymisþjónustu um fastlínutengingu heimilanna. Yfir 80% eru með áskriftina í pökkum.

Þegar spurt var hvaða sjónvarps- og eða myndstreymisþjónusta er keypt fyrir heimilið er Netflix vinsælust en 53,7% heimila segjast með áskrift að henni. Sjónvarp Símans kemur fast á hæla Netflix með 50,3% heimilanna og enn fremur kemur fram að erlendu myndstreymisveiturnar Disney+ og Viaplay, sem komu inn á íslenska markaðinn á þessu ári hafa náð nokkurri fótfestu. 13% heimila eru með áskrift að Disney+ og um 10,5% að þjónustu Viaplay. Mikill munur er þó á notkun einstakra hópa. Þannig eru t.d. 75% fólks á aldrinum 18 til 29 ára með áskrift að Netflix en hlutfallið er 38% meðal 50-67 ára.

Athygli vekur að nær helmingur heimila er enn með áskrift að fastlínusíma skv. könnuninni. 49% segjast vera með heimasíma á heimilinu. Munurinn er þó misjafn milli aldurshópa. 76% fólks á aldrinum 68 ára eða eldri eru með heimasíma en 45% fólks á aldrinum 30 til 49 ára svarar þeirri spurningu játandi. Í langflestum tilvikum er heimasíminn keyptur sem hluti af pakka með netþjónustu.

Flest heimili virðast vera ánægð með nettenginguna og gagnahraðann og aðeins 16% segjast finna fyrir fyrir vandkvæðum þegar horft er á margar sjónvarpsstöðvar, myndstreymisveitur og/eða þegar spilaðir eru nettengdir tölvuleikir á sama tíma á heimilinu vegna skorts á afkastagetu netsins.

Fram kemur að 47% heimila segja tvær eða þrjár sjónvarpsstöðvar, myndlykla eða streymisveitur vera í notkun að hámarki á sama tíma um sömu nettenginguna.

Þegar spurt er um notkun á netinu kemur í ljós að 75% heimila segjast vafra frekar eða mjög mikið á netinu. Svipað hlutfall notar netið mikið á samfélagsmiðlum og 46% segjast nota netið frekar eða mjög mikið til að hlusta á tónlistarstreymisveitur á borð við Spotify. Hlustun á tónlistarstreymisveitur er langmest í yngstu aldurshópunum þar sem tæp 70% segjast gera frekar eða mjög mikið af því. 28% segjast nota netið mikið í samskipti við hið opinbera og 17% segjast nota það mikið til að versla á netinu en 30% segjast gera það frekar lítið.

25% spila netleiki mikið

Einn af hverjum fjórum í könnun MMR fyrir Póst- og fjarskiptastofnun segist spila leiki frekar eða mjög mikið yfir netið á heimilum sínum. Þegar spurt var hversu mikið eða lítið netþjónusta heimilisins væri notuð fyrir netleiki sögðust 9% gera mjög mikið af því og 16% frekar mikið. 11% svöruðu bæði en 62% sögðust gera frekar eða mjög lítið af því.

Stærsti aldurshópurinn sem notar netið mikið til að spila tölvuleiki er á aldrinum 30 til 49 ára en 35% þeirra segjast nota netið mikið til að spila netleiki. Hlutfallið er 31% meðal 18 til 29 ára. Lítill munur er á svörum kynjanna þegar spurt er um netleikjanotkunina en nokkru fleiri karlar en konur segjast gera mikið af því.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. október.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »