Ofurlest prófuð með farþega innanborðs

Virgin Hyperloop hefur verið mörg ár í þróun og er …
Virgin Hyperloop hefur verið mörg ár í þróun og er byggð á hugmynd Elons Musks, eiganda bílsmiðjunnar Tesla. AFP

Þróun ofurhraðlestarinnar Virgin Hyperloop færist nær endamarkinu en gerðar voru tilraunir með farþega í þróunarlestinni í Nevadaeyðimörkinni á sunnudag.

Hugmyndin að lestinni, sem líkist helst hylki, er að hún aki á ógnarhraða innan í lofttæmisgöngum. Orku til hröðunar fær hún með segulmagni og svífur lestin þar af leiðandi nokkrum millimetrum ofan við segulteininn.

Í tilrauninni fór hylkið með tvo starfsmenn fyrirtækisins innanborðs tvær ferðir í hinum 500 metra löngu göngum. Mesti hraði sem náðist á 15 sekúndna sprettinum var 172 km/klst. Er það ekki nema brot af væntanlegum rúmlega 1.000 km hraða þegar hún kemst í notkun.

Forsvarsmenn Virgin Hyperloop segja lestina fræðilega séð geta flutt farþega …
Forsvarsmenn Virgin Hyperloop segja lestina fræðilega séð geta flutt farþega á milli Lundúnaflugvallanna Gatwick og Heathrow á aðeins fjórum mínútum en þar á milli eru 70 kílómetrar. AFP

Sara Luchian, samskiptastjóri hjá fyrirtækinu, var önnur þeirra er fóru í tímamótaferðina. Lýsti hún henni fyrir BBC-stöðinni sem „hressandi upplífgun bæði fyrir sál og líkama“. Hún og tæknistjórinn Josh Giegel voru íklædd flíspeysu og gallabuxum en ekki fluggalla í tilrauninni, sem fór fram skammt frá Las Vegas. Hún sagði ferðina hafa verið þægilega og ekkert líka rússíbanareið. Bætti við að hröðunin hefði verið „mun sprækari“ á lengri braut. Hvorugt þeirra Giegels varð bílveikt.

Virgin Hyperloop hefur verið mörg ár í þróun og er byggð á hugmynd Elons Musks, eiganda bílsmiðjunnar Tesla. Gagnrýnendur uppátækisins segja áformin hljóma eins og upplestur úr vísindaskáldsögu. Lestin er byggð á svonefndri maglev-segulspólunartækni en er með lofttæminu í rörinu stóra ætlað að ná enn meiri ferð en hingað til hefur tekist. Maglev-lest setti hraðamet við Fujifjallið í Japan 2015 og náði þar 600 km/klst ferð.

Forsvarsmenn Virgin Hyperloop segja lestina fræðilega séð geta flutt farþega á milli Lundúnaflugvallanna Gatwick og Heathrow á aðeins fjórum mínútum en þar á milli eru 70 kílómetrar. Í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Los Angeles er verið að þróa hugmyndir að brautum í öðrum löndum, meðal annars eina sem byði upp á aðeins 12 mínútna ferð milli Dúbaí og Abú Dabí, en með núverandi samgöngumáta tekur ferðin á aðra klukkustund.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert