Kínverjar sækja grjót frá tunglinu

Fjöldi fólks fylgdist með er geimflauginni var skotið á loft.
Fjöldi fólks fylgdist með er geimflauginni var skotið á loft. AFP

Ómannaðri kínverskri geimflaug var í gær skotið frá jörðu. Hún er á leið til tunglsins með lítið faratæki um borð sem áætlað er að muni taka með sér til jarðar fyrstu tunglsýnin í fjóra áratugi.

Geimflaugin tók af stað klukkan 4:30 í nótt að kínverskum tíma (20:30 á mánudag að íslenskum) frá Wenchang-geimstöðinni á eyjunni Hainan en athöfninni var sjónvarpað í kínverska ríkissjónvarpinu.

Kínverjar hafa á síðustu árum varið milljörðum í geimferðaáætlanir sínar, sem eru á forræði hersins, og eru áætlanir um að koma upp mannaðri geimstöð árið 2022 og á endanum senda menn til tunglsins.

Markmið geimskotsins nú er þó sem fyrr segir að sækja tunglgrjót og jarðveg til að gera vísindamönnum kleift að stunda rannsóknir á uppruna tunglsins, jarðmyndun og fyrri tíma eldvirkni á yfirborði þess.

Gert er ráð fyrir að farartækið, sem ber nafnið Chang'e 5, lendi á tunglinu innan nokkurra daga, en verði þar við steinasöfnun í einn tungldag — eða sem nemur 14 jarðdögum — áður en það snýr aftur.

Áhættusamt verkefni

Jonathan McDowell, geimfari við Harvard-Smithsonian-geimvísindastofnunina, segir í samtali við AFP að verkefnið sé tæknilega krefjandi og að margar áður óséðar uppfinningar sé að finna í kínversku geimferjunni.

„Bandaríkin létu aldrei vélmenni um að safna sýnum. Sovétmenn gerðu það en það var mjög takmarkað og þeir gátu aðeins lent á sérstökum stöðum,“ segir hann. „Kínverska kerfið er hins vegar mun sveigjanlegra og sýnatökukerfið er mjög háþróað.“

Kínverskar geimferjur hafa tvisvar áður lent á tunglinu, árið 2013 og 2019, en aldrei tekið sýni.

Chen Lan, sérfærðingur við GpTaikonauts, sem sérhæfir sig i geimferðaáætlunum Kínverja, segir að segir að geimskotið feli í sér tækifæri fyrir Kínverja til að þróa tækni sem verði notuð í mönnuðum geimferðum framtiðarinnar. Lýsir hann verkefninu sem „einu af áhættusömustu verkefnum Kínverja“ í þessum efnum.

Ríkisfréttamiðillinn Xinhua segir verkefnið til marks um að forystuhlutverk Kínverja í geimrannsóknum. „Þótt Kínverjar taki nú forystu í geimrannsóknum eftir áratugi af sjálfstæðum uppgötvunum á sviði geimvísinda, þá verður landið ávallt reiðubúið að deila afrekunum.“

mbl.is