Bretar veita bráðaleyfi

Bretland varð fyrst ríkja heims til að veita bráðaleyfi fyrir bóluefni sem fyrirtækin Pfizer/BioNTech hafa þróað gegn kórónuveirunni. Leyfið var veitt í dag.

Breska lyfjaeftirlitið, MHRA, segir að bóluefnið, sem veitir allt að 95% vörn gegn Covid-19-veikindum, sé öruggt og því óhætt að hefja dreifingu þess í landinu. Bólusetningar geta því hafist í Bretlandi innan fárra daga meðal fólks í forgangshópum.

AFP

Bresk stjórnvöld hafa þegar pantað 40 milljónir skammta af bóluefninu sem nægir til að bólusetja 20 milljónir íbúa landsins, en tvo skammta þarf til þess að veita mikla vörn gegn veirunni. Um 10 milljónir skammta verða til reiðu fljótlega en fyrstu skammtarnir koma til Bretlands eftir nokkra daga. 

Í frétt BBC kemur fram að aldrei áður hafi tekið svo stuttan tíma að þróa bóluefni í heiminum, það er frá hugmynd til raunveruleika, eða aðeins 10 mánuði. Um sama þróunarferli er að ræða og venjulega tekur áratug. 

Sérfræðingar segja að þrátt fyrir að bólusetningar geti hafist fljótlega verði fólk að vera vel á verði og fylgja sóttvarnareglum til að stöðva dreifingu veirunnar. 

Það þýðir að gæta fjarlægðartakmarkana og nota grímu á sama tíma og fólk fari í skimun við veirunni og þeir sem greinist með Covid-19 einangri sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert