Google fjarlægir Parler

Parler appið hefur verið fjarlægt úr Google Play Store.
Parler appið hefur verið fjarlægt úr Google Play Store. AFP

Google hefur fjarlægt appið Parler úr dreifingu í Google Play Store. Það torveldar fólki sem notar síma með Android stýrikerfi, t.d. Samsung síma, að sækja appið.

CNBC greinir frá. 

Parler er samfélagsmiðill, stofnaður árið 2018, sem er vinsæll meðal stuðningsmanna Trump. Vinsældir appsins hafa margfaldast síðustu daga þar sem stuðningsmenn Trumps flykkjast þangað í stað Twitter þar sem ekki eru höfð afskipti af efni sem notendur setja þar inn.

„Ef þú getur sagt það á götum New York borgar, getur þú sagt það á Parler,“ sagði John Matze, framkvæmdastjóri Parler í júní í fyrra.

Engin ritskoðunarstefna á Parler

Í yfirlýsingu Google segir að það geri kröfur til samfélagsmiðlaforrita um að haf stefnu um samfélagsumræðu inni á miðlinum og hafa afskipti komi til að þess þurfi, s.s. þegar efni hvetur til ofbeldis. Það eigi við um efni sem leyft er að vera á Parler. Vísað er í umræður þar sem hvatt er til frekara ofbeldis eftir að múgur braust inn í þinghús Bandaríkjanna á miðvikudaginn.

Twitter hefur þegar lokað reikningi Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, til frambúðar vegna þess að efni hans þótti hvetja til ofbeldis. Facebook hefur takamarkað getu Trumps að setja inn efni á síðuna sína. 

Fullyrt er á fréttastofum vestanhafs að finna megi efni og ummæli á Parler þar sem fólk er hvatt til þess að mæta með skotvopn á innsetningarathöfn Joe Bidens.

mbl.is

Bloggað um fréttina