Hafa greint 463 afbrigði

Íslensk erfðagreining.
Íslensk erfðagreining. AFP

Tekist hefur að greina 463 veiruafbrigði kórónuveirunnar á Íslandi en allt frá því fyrsta smitið greindist á Íslandi hafa starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar raðgreint jákvæð sýni úr skimunum.

AFP-fréttastofan fjallar ítarlega um rannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar á kórónuveirunni í dag. Þar kemur fram að rannsóknir fyrirtækisins séu gríðarlega mikilvægar í dag þegar ný afbrigði af Covid-19 hafa skotið upp kollinum sem virðast meira smitandi en önnur. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hvetur öll ríki til þess að hefja slíkar rannsóknir, það er að raðgreina þau jákvæðu sýni sem greinast. WHO mælir með þessu vopni í baráttunni við þau afbrigði sem nýlega eru komin fram, svo sem það sem er kennt við Bretland, Suður-Afríku og Brasilíu. 

Ólafur Þór Magnússon sem stýrir rannsóknunum segir að það taki aðeins þrjár klukkustundir til að ákvarða um gerð smitsins. Enn sem komið er hefur suðurafríska afbrigðið ekki greinst á Íslandi en 41 hefur greinst með það breska (B.1.1.7) en allir þeirra hafa verið greindir í tengslum við landamæraskimun.

Í grein AFP er fjallað um að þetta hafi gert það mögulegt að rekja tengsl smita við bar í miðborg Reykjavíkur og yfirvöld hafi tekið ákvarðanir um að loka börum og skemmtistöðum í kjölfarið. Ísland sé eina landið þar sem öll smit hafi verið rakin með þessum hætti. Því þrátt fyir að lönd eins og Bretland, Danmörk, Ástralía og Nýja-Sjáland séu með öfluga rakningu þá kemst ekkert þeirra þangað með tærnar þar sem Ísland er með hælana.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. AFP

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir lítið mál að rekja afbrigði veirunnar enda séu þetta aðeins um 30 þúsund kirni (núkleótíð), „það er ekkert,“ segir Kári við blaðamann AFP. 

„DNA og RNA eru kjarnsýrur sem báðar eru afar mikilvægar fyrir allar lífverur, sú fyrri sem erfðaefni en sú síðari sem túlkandi erfðaboði. Kjarnsýrur eru langar keðjusameindir settar saman úr einingum sem kallast kirni (núkleótíð). Hvert kirni er aftur sett saman úr sykru, fosfati og niturbasa. Í DNA eru ferns konar niturbasar, adenín (A), gúanín (G), cýtósín (C) og týmín (T). Í RNA eru líka ferns konar niturbasar, þrír þeir sömu og í DNA en í stað týmíns í DNA er basinn úrasíl í RNA. Sykrur DNA og RNA eru líka ólíkar. Í DNA er sykran deoxyríbósi en í RNA er ríbósi. Að öðru leyti eru keðjur DNA og RNA eins,“ segir um kirni á Vísindavef Háskóla Íslands. 

mbl.is