Tilraunaflug Mars-dróna á Íslandi hlaut NASA-styrk

Holuhraun verður nýtt undir tilraunaflug dróna sem ætlað er að …
Holuhraun verður nýtt undir tilraunaflug dróna sem ætlað er að rannsaka Mars. RAVEN-verkefni Háskólans í Arizona hefur hlotið 402 milljóna styrk frá NASA. mbl.is/RAX

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA hefur veitt vísindamönnum við Háskólann í Arizona 3,1 milljón bandaríkjadala í styrk, andvirði 402 milljóna íslenskra króna, til að hefja tilraunaflug á Íslandi með drónum sem ætlað er að taka þátt í rannsóknum á plánetunni Mars. Verkefnið mun standa í þrjú ár.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu á vef Háskólans í Arizona. Rannsóknaverkefnið RAVEN (ísl. hrafninn) er eitt þeirra fjögurra verkefna sem fékk úthlutað styrk úr sérstökum rannsóknasjóði NASA fyrir könnun pláneta, en 48 sóttu um.

Ýmsir drónar hafa verið hannaðir fyrir geimleiðangra á undanförnum árum.
Ýmsir drónar hafa verið hannaðir fyrir geimleiðangra á undanförnum árum. Mynd/NASA/JPL-Caltech

Christopher Hamilton hjá Háskólanum í Arizona leiðir tuttugu manna hóp vísindamanna og verkfræðinga sem munu halda til Íslands í þeim tilgangi að gera tilraunir með nýjustu kynslóð búnaðar fyrir Mars-leiðangra í Holuhrauni en mannlaus loftför eins og drónar eru talin geta veitt vísindamönnum tækifæri til að kanna svæði á Mars sem til þessa hafa reynst óaðgengileg og er hugsunin að drónar styðji við könnunarvinnu tunglbíla.

Hamilton segir í samtali við mbl.is að undirbúningur fari af stað í vor og munu vísindamenn þá kortleggja hvaða svæði henta best undir tilraunaflugið. Þá kemur tunglbíll af gerðinni MESR frá kanadísku geimsvísindastofnuninni CSA til landsins og mun hann aðstoða við að kanna svæðið við Öskju.

Hamilton hefur gert tilraunir með dróna um nokkurt skeið.
Hamilton hefur gert tilraunir með dróna um nokkurt skeið. Ljósmynd/Christopher Hamilton
Tungbíllinn Mars Exploration Science Rover (MESR) kemur til Íslands í …
Tungbíllinn Mars Exploration Science Rover (MESR) kemur til Íslands í vor. Ljósmynd/Canadian Space Agency

Það er síðan sumarið 2022 sem tilraunaflug fer af stað af fullum krafti og síðan aftur árið 2023. „Á næstu mánuðum mun ég eiga samstarf við vísindamenn og verkfræðinga Háskóla Íslands í þeim tilgangi að auka aðkomu heimamanna,“ segir Hamilton.

Ástæða þess að Ísland og nánar tiltekið Holuhraun varð fyrir valinu er að hraunið er talið líkjast sambærilegu hrauni á plánetunni rauðu þar sem um er að ræða hraun á svæði þakið sandi og fátt um gróður.

mbl.is