Minni virkni en talið var

AFP

Yfirmaður bólusetningarherferðar Ísraela varar við því að ýmislegt bendi til þess að einn skammtur af Pfizer-BioNTech-bóluefninu veiti minni vörn en vonast var til. Aldrei hafa jafn margir greinst með Covid-19 í Ísrael á einum sólarhring og á mánudag.

Nachman Ash greindi frá þessu í viðtali við útvarpsstöð hersins en 10 þúsund greindust með kórónuveiruna í Ísrael á mánudag. Hann segir að svo virðist vera sem einn skammtur hafi minni áhrif en yfirvöld í Ísrael höfðu vonast eftir og jafnvel minni áhrif en Pfizer hafi talað um.

Samkvæmt tölum frá Sheba-heilsugæslunni í Tel Hashomer eru þeir sem fá seinni skammtinn af Pfizer-bóluefninu með sex til 12 sinnum meira mótefni en þeir sem fá aðeins einn skammt. 

Guardian fjallar um þetta í gær og þar kemur fram að það sé vel þekkt að tveir skammtar hafi miklu meiri áhrif en aðeins einn sem og að vörnin myndast ekki um leið og bólusett er. Það tekur fyrri skammtinn einhverjar vikur að virka og þá getur seinni skammturinn veitt aðra og betri vörn. 

Samkvæmt upplýsingum frá Pfizer veitir einn skammtur um það bil 52% vörn. Einhver lönd, svo sem Bretland, hafa frestað því að bólusetja í seinna skiptið í þeirri von að geta bólusett sem flesta.

Spurningin um virkni bóluefnisins kemur til út af því hversu margir Ísraelar eru að veikjast af Covid-19 eftir að hafa fengið bólusetningu en ekkert land hefur bólusett jafn marga þegna og Ísrael. 30-40% þeirra sem hafa fengið Covid-19 í Ísrael að undanförnu hafa greinst með afbrigði veirunnar sem fyrst greindist í Bretlandi, B.1.1.7

Hér er hægt að lesa fylgiseðil með bóluefninu frá Pfizer á íslensku

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert