Lögregluyfirvöld hafa haldlagt þúsundir tölva sem notaðar voru til að starfrækja eitt stærsta og hættulegasta net botta (e. bot) í heimi, netkerfi sem kallast Emotet. Emotet-netkerfið var notað til að hakka tölvur fórnarlamba í gegnum tölvupóst, viðhengi eða spilliforrit og safna þaðan upplýsingum sem seldar voru áfram í undirheimum netsins.
Aðgerðin var framkvæmd af lögregluyfirvöldum í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Litháen, Úkraínu, Kanada, Hollandi og Bandaríkjunum. Europol segir Emotet hafa verið stærsta bottanet síðasta áratugar. BBC greinir frá.
„Þegar kerfið komst inn í tölvur einstaklinga var aðgangurinn seldur til umsvifamikilla glæpahringja sem notuðu upplýsingarnar í sínum glæpum, til að stela frekari upplýsingum eða kúga fé með spilliforritum,“ sagði í yfirlýsingu Europol.
Á Twitter-aðgangi Europol er útskýrt hvernig Emotet virkaði og hvers vegna það var svo hættulegt sem raun bar vitni.