Kubbslaga kúkur vambans ráðgáta ei meir

Kubbslaga kúkur vamba. Tasmanía í bakgrunni.
Kubbslaga kúkur vamba. Tasmanía í bakgrunni. Ljósmynd/Bjørn Christian Tørrissen

Hvernig vambar fara að því að skilja eftir sig kassalagaðar hægðir, hér og þar á ferðum sínum um Ástralíu og Tasmaníu, hefur löngum þótt líffræðileg ráðgáta. En ný alþjóðleg rannsókn hefur nú varpað ljósi á hvernig litlu pokadýrin komast upp með þetta.

Kössótta formið verður nefnilega til inni í þörmunum, en ekki síðar, þ.e. þegar vambi verður viðskila við völurnar ferhyrndu.

Fjallað er um rannsóknina í vísindaritinu Soft Matter og birtist umfjöllunin í gær. Er þar farið nánar ofan í bráðabirgðaniðurstöður sem fyrst voru kynntar á fundi bandaríska eðlisfræðifélagsins í Georgíu árið 2018, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian.

Vambi á rambi. Meðalvambinn er rétt undir metra að lengd.
Vambi á rambi. Meðalvambinn er rétt undir metra að lengd. Ljósmynd/JJ Harrison

Fjöldi litríkra kenninga

Scott Carver, doktor í líffræði við Tasmaníu-háskóla og einn höfunda rannsóknarinnar, segir að í gegnum tíðina hafi fjöldi litríkra kenninga verið uppi um hvernig á þessu stæði.

Til að mynda hafi því verið fleygt fram að vambar hefðu kassalaga hringvöðva, eða þá að hægðirnar væru kreistar á milli mjaðmabeinanna, að ónefndri þeirri „algjöru fásinnu“ að vambar veldu að klappa kúknum svo hann tæki á sig þetta form, að sjálfum verknaðinum loknum.

Rannsóknarverkefnið á rætur að rekja fjögur ár aftur í tímann, þegar Carver var að kryfja vamba sem orðið hafði fyrir bíl. Tók hann um leið eftir litlu kubbunum í þörmum vambans.

„Nú dámar mér ekki,“ mun Carver að sögn hafa hugsað, er hann leit þá augum.

„Hvernig ferðu að því að búa til kubb inni í því sem er í raun mjúk slanga?“ spurði hann sig.

Hópur rannsakenda í Ástralíu, þar á meðal yfirdýralæknirinn í Taronga-dýragarðinum, prófaði garnastrengina í þörmunum á sama tíma og eðlisfræðingar í Bandaríkjunum bjuggu til stærðfræðilíkön til að líkja eftir framleiðslu kubbanna.

Við þetta uppgötvaðist mikil breyting á þykkleika vöðvanna í þörmunum, þar sem annars vegar voru tvö stíf svæði og hins vegar tvö svæði sem þóttu talsvert sveigjanlegri.

Gerir þetta það að verkum að taktfastir samdrættir þarmanna móta hornin á kúkakubbunum.

En af hverju?

Spurður af hverju vambar eigi kost á þessu nefnir Carver eina kenningu. Hún er á þann veg að vambar, með sitt sterka lyktarskyn, eigi samskipti hver við annan með hægðum sínum. Kubbslaga form kúksins komi þá í veg fyrir að þeir rúlli í burtu.

Til að forðast allan misskilning, sem sagt.

Rannsakendurnir komust þannig að því að kubbslaga kúkar, í átta gráða halla, rúlli mun skemur en ávalir og hringlaga bræður þeirra.

Til viðbótar auknum skilningi á líffræði vambanna bendir Carver á að uppgötvunin varpi ljósi á hvernig megi framleiða kubba inni í mjúkum slöngum. Sú tækni geti nýst við annars konar framleiðslu, í klínískri meinafræði og meltingarlæknisfræði.

mbl.is