Bóluefni AstraZeneca virðist hefta útbreiðslu

Heilbrigðisstarfsmaður undirbýr bólusetningu með bóluefni AztraZeneca sem þróað var af …
Heilbrigðisstarfsmaður undirbýr bólusetningu með bóluefni AztraZeneca sem þróað var af Oxford háskóla. AFP

Niðurstöður rannsóknar Oxford-háskóla, sem ekki hefur verið birt formlega, benda til þess að bóluefni AstraZeneca, sem Oxford-háskóli þróaði, gæti heft samfélagslega útbreiðslu kórónuveirunnar. 

Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu.

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, segir niðurstöðurnar „algjörlega frábærar“.

Um er að ræða fyrsta sinn sem það er sannað að bóluefni minnki samfélagslegt smit kórónuveiru. Niðurstöðurnar benda til þess að hver bólusettur einstaklingur muni óbeint líka verja þá sem ekki hafa verið bólusettir.

Heilbrigðisráðherrann Matt Hancock er hæstánægður með niðurstöðurnar.
Heilbrigðisráðherrann Matt Hancock er hæstánægður með niðurstöðurnar. AFP

Einn skammtur veitir 76% vernd

9,6 milljónir Breta hafa verið bólusettar fyrir Covid-19 í Bretlandi. 

Hancock segir niðurstöðurnar sýna að bóluefni séu leiðin út úr faraldrinum og að niðurstöðurnar séu mjög hvetjandi. 

Fyrrnefnd rannsókn leiddi einnig í ljós að einn skammtur af bóluefni AstraZeneca veitir hinum bólusetta 76% vernd fyrir kórónuveirusmiti í þrjá mánuði eftir bólusetningu. Almennt er fólk bólusett með tveimur skömmtum af bóluefninu sem veitir þá 82% vernd. 

Íslensk stjórnvöld hafa samið við AstraZeneca um 230.000 skammta frá AstraZeneca. Þeir duga fyrir 115.000 einstaklinga. Bóluefnið hefur fengið markaðsleyfi hérlendis en komutími þess hingað til lands er óviss. AstraZeneca stefnir að því að byrja að afhenda skammta í Evrópu á fyrsta ársfjórðungi.

mbl.is