Langir biðlistar og algjör óvissa

PlayStation 5 var ein vinsælasta jólagjöf síðasta árs, þó erfitt …
PlayStation 5 var ein vinsælasta jólagjöf síðasta árs, þó erfitt væri að næla sér í eintak af vélinni.

„Manni líður eiginlega eins og Þórólfi hlýtur að líða þegar hann svarar til um bóluefnin. Þótt málin séu gjörólík er eftirspurnin gríðarleg og engan veginn hægt að framleiða nóg,“ segir Ólafur Þór Jóelsson, framkvæmdastjóri hjá Senu.

Sena sér um dreifingu fyrir Sony og þar með hina vinsælu Playstation 5 tölvu sem kom á markað seint á síðasta ári. Það hefur vart farið fram hjá mörgum að leikjatölvan var ein af vinsælustu jólagjöfum síðasta árs þrátt fyrir að fremur fá eintök af henni hafi borist til landsins. Raunar er það svo um allan heim að færri hafa fengið PS5 en vilja. Og enn bólar ekkert á vélunum hingað.

„Sony er að gera sitt besta til að framleiða vélar í þessu undarlega árferði. Við fengum sendingu fyrir jólin og fáum vonandi aðra fyrir lok mánaðarins. Það er samt ekki nándar nærri nóg til að anna eftirspurn og hreinsa upp biðlista,“ segir Ólafur.

Undir þetta tekur Gestur Hjaltason, framkvæmdastjóri Elko. „Við vitum ekkert hvenær það koma fleiri vélar eða hvað við fáum margar. Það eru einhver hundruð sem eru á biðlistum hjá okkur og sumir eru þegar búnir að greiða fyrir vélarnar. Þegar við fengum 260 vélar aukalega fyrir jólin réð kerfið ekki við eftirspurnina. Það voru átta þúsund manns að reyna að kaupa þær á 2-3 mínútum. Því fóru einhver kaup í gegn sem við gátum ekki klárað. Margir völdu að halda sínum greiðslum inni og eru því framar í röðinni. Við hefðum getað selt fleiri þúsundir véla til viðbótar við þau hundruð sem við seldum fyrir jólin.“

Ólafur bendir á að sjö ár eru liðin síðan síðasta Playstation-tölva kom út. Þá hafi Íslendingar mátt bíða í þrjá mánuði frá útgáfudegi þar til fyrsta vélin barst hingað. Í ofanálag hafi fleiri vélar borist fyrsta kastið nú en þá. „En maður skilur að biðin getur verið erfið. Ég finn svo sannarlega til með fólki sem þarf að gera það.“ 

Fréttin birtist í Morgunblaðinu 5. febrúar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »