Góð gríma lykilatriði

AFP

Sérfræðingar segja að það sé orðið tímabært að aukin áhersla sé lögð á gæða-grímur eða að nota þriggja laga grímur og taugrímur saman vegna bráðsmitandi afbrigða kórónuveirunnar.

Vísindamenn eru sammála um að helsta smitleið Covid-19 er loftsmit fremur en snerting og að lítils háttar úði frá öndun og tali geti borist marga metra.

Þetta þýði að aukin hætta á úðasmiti sé fyrir hendi vegna nýrra afbrigða eins og þess sem fyrst greindist á Bretlandi, B.1.1.7.

Þegar byrjað var að mæla með notkun á grímum á almannafæri var skortur á gæða-grímum á markaði og því var almenningur hvattur til þess að nýta sér aðrar grímur. Sums staðar voru slíkar grímur gerðar úr bolum eða öðru sem til féll.  

Linsey Marr, prófessor í verkfræði við Virginia Tech, sem sérhæfir sig í dreifingu smitsjúkdóma með lofti segir í samtali við AFP-fréttastofuna að það sé tvennt sem skipti mestu varðandi virkni gríma: að nota grímuna rétt og síur grímunnar. Hér á Íslandi er mælt með þriggja laga grímum en Marr segir að auk þess skipti miklu að gríman hylji bæði munn og nef til að stöðva dropasmit. Hún segir að jafnvel lítið bil geti aukið smithættuna um 50%. Best sé að nota grímur sem eru viðurkenndar. Þetta eru sérstakar sóttvarnagrímur með gatastærð um 0,3 míkrómetra, sem hleypa ekki í gegn örsmáum ögnum svo sem veirum.

Þrátt fyrir að nefna möguleikann á að nota tvær grímur segir Marr að ekki sé mælt með því að nota fleiri. Með því að bæta við sé alltaf hætta á að viðkomandi lendir í vandræðum með öndun. Það verði að vera auðvelt að anda í gegnum lög grímunnar því að öðrum kosti er meiri hætta á að leki meðfram grímunni.  

Sjá meira um grímur á covid.is

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert