Mannslíf sett í hættu vegna „bóluefna-þjóðernishyggju“

AFP

Ólíklegt er að kórónuveirufaraldrinum ljúki fyrr en fátækari þjóðir heims fá aðgang að bóluefni. Þetta kemur fram í grein sem hópur vísindamanna ritar í læknaritið Lancet.

Í greininni sem BBC vísar til kemur fram að það þurfi gríðarlegt magn af bóluefni og magnið sé án fordæma. Vegna skorts á fé hafa fátækari þjóðir orðið undir í baráttunni við ríkari lönd sem kaupa upp allt það bóluefni sem kemur á markað. Sérfræðingarnir segja að auka þurfi framleiðslu á bóluefni og að bóluefnaskammtarnir séu seldir á viðráðanlegu verði. 

BBC segir að þetta sé nýjasta aðvörunin um að „bóluefna-þjóðernishyggja“ sé að setja mannslíf í hættu. 

Vísað er í ummæli aðalritara Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, sem gagnrýndi þetta harðlega og sagði að ekkert okkar væri öruggt fyrr en öll heimsbyggðin er örugg.

Í greininni í Lancet kemur fram að með því að lengja í farsóttinni með of litlu framboði af bóluefni sé ýtt undir að stökkbreyttum afbrigðum fjölgi enn frekar. 

„Ef ekki verður gætt meira jafnræðis við dreifingu bóluefnis getur tekið ár þangað til tekst að ná tökum á faraldrinum á heimsvísu,“ segir helsti höfundur greinarinnar, Olivier Wouters, sem starfar við London School of Economics.

Gríðarlegur munur er á verði bóluefnanna þar sem það ódýrasta kostar um 5 bandaríkjadali skammturinn en það dýrasta yfir 60 dali. Sum er hægt að geyma við stofuhita en önnur þarf að geyma við ískulda. 

Samkvæmt BBC er um 70% af því bóluefni sem er til í höndum ríkra þjóða og hætta sé á að taki ár að útvega fátækari löndum bóluefni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert