Stefnumótaforrit til bjargar á Covid-tímum

Skjáskot af match.com

Ein þjónusta hefur blómstrað í kórónuveirufaraldrinum – stefnumótaforrit – sem eru oft eina leiðin fyrir fólk til þess að vera í samskiptum við aðra.

Rodrigo, sem er 18 ára Portúgali, hafði aldrei látið það hvarfla að sér að skrá sig í slíka þjónustu en eftir að hafa látið sér leiðast mánuðum saman vegna útgöngubannsins lét hann sig hafa það. 

„Í byrjun sögðum við okkur sjálfum að þetta myndi líða hjá, að við yrðum að sýna þolinmæði. En þegar tímabundið verður viðvarandi verður þú að reyna nýja hluti,“ segir hann í samtali við AFP. 

Kennsla fer að mestu fram á netinu og takmarkaðir möguleikar eru á að hitta vini í mörgum löndum, þá er stefnumótaforrit það sem getur komið fólki til bjargar. „Mér leið eins og ég eyddi bókstaflega öllum mínum tíma með foreldrum mínum,“ segir Rodrigo sem fer inn á forritið á hverjum degi núna.

Ekki til þess að krækja í einhvern heldur til að spjalla við fólk sem hann hefur kynnst og myndað vinatengsl við. Hann spjallar við fjórar manneskjur í gegnum forritið daglega og þetta auðveldi honum og um leið þeim að draga úr vanlíðan sem fylgir einangrun af völdum Covid. „Þetta er það eina sem við eigum eftir,“ segir hann en Rodrigo er portúgalskur og þar eru mjög harðar sóttvarnareglur í gildi. 

Match er stefnumótaþjónusta á netinu sem býður upp á þjónustu í meira en 50 löndum á tólf tungumálum. Höfuðstöðvar þess eru í Dallas í Texas. Match Group á nokkrar stefnumótaþjónustur, svo sem Tinder, Hinge og Meetic.

Samkvæmt upplýsingum frá Match fjölgaði notendum þjónustunnar um meira en milljón á síðasta ársfjórðungi 2020 og eru þeir nú um 11 milljónir talsins.

Sébastien, sem er 19 ára gamall Frakki, segir að þetta hljómi kannski eins og klisja en þessi þjónusta hafi hreinlega bjargað geðheilsu hans í Covid. „Þegar við getum ekki mætt í háskólann, á bari, veitingahús og kvikmyndahúsin eru lokuð erum við ein allan daginn. Það er hræðilegt,“ segir hann. 

Fyrst byrjar fólk á því að skiptast á skriflegum skilaboðum en þjónustan fer síðan yfir í myndspjall. Aukin áhersla er nú lögð á þá þjónustu enda sennilega það sem kemst næst því að hitta fólk þegar útgöngubann ríkir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert