Talgreinir textar efni í beinni

Dæmi um rauntímatextun á kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.
Dæmi um rauntímatextun á kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Skjáskot/Tiro

Talgreinir frá nýsköpunarfyrirtækinu Tiro gerir fólki nú kleyft að breyta íslensku tali, til dæmis myndböndum eða hljóðskrám, í texta. Þó er það enn þannig að leiðrétta þarf textann nokkuð eftir sjálfvirka greiningu. 

Þá er hægt að horfa á útsendingu Ríkissjónvarpsins með textun á íslensku í rauntíma. 

„Þetta er krefjandi verkefni fyrir talgreina og oft á tíðum getur útkoman verið nokkuð skondin en tæknin getur samt sem áður nýst t.d. heyrnardaufum mjög vel. Þá hefur Tiro þróað vefspilara fyrir vef RÚV sem hægt er að stýra með raddskipunum. Verkefnið er liður í því að vekja athygli á þeim tækifærum sem felast í íslenskri máltækni,“ segir í tilkynningu frá Tiro. 

Fyrirtækið varð til út frá rannsóknum á sviði máltækni við Háskólann í Reykjavík. Fyrirtækið hóf starfsemi sína með tilstuðlan styrks frá Tækniþróunarsjóð til að þróa talgreini fyrir „dikteringar“ í myndgreiningu röntgenlækna árið 2014.

Í tilkynningunni er haft eftir Eydísi Huld Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Tiro, að á sviði raddskipana megi sjá fyrir sér ótal möguleika fyrir talgreina sem geti náð miklum gæðum með afmörkuð viðfangsefni en aðlögun talgreina að sérhæfðum viðfangsefnum hafi mikil áhrif á gæði þeirra.

Þannig er t.a.m. ekki sama orðalag og kröfur um gæði þegar panta á pítsu og þegar ræður á Alþingi eru skráðar. Hljóðtruflanir og óskýrmæli geti haft neikvæð áhrif og er ekki sama hvort börn, fullorðnir eða einstaklingar með annað móðurmál en íslensku tali. Tiro hefur í nokkur ár unnið að þróun á talgreini til að þýða almennt íslenskt talað mál í texta. Með þróun hans hefur fyrirtækið lagt grunn að þróun sérhæfðra lausna sem gætu náð góðum gæðum í afmörkuðum viðfangsefnum.

„Það sem hefur komið mér mest á óvart í þessari vinnu er hvað talgreining getur nýst víða til að auka lífsgæði einstaklinga með fatlanir, einfalda vinnubrögð og ekki síst í öllu daglegu umhverfi,“ er haft eftir Eydísi í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert