Vara við notkun 5G-tækja um borð í flugvélum

5G-farsímamastur í Peking í Kína.
5G-farsímamastur í Peking í Kína. AFP

Frönsk flugmálayfirvöld vara við því að nýjasta kynslóð 5G-snjallsíma geti truflað flughæðarmæla flugvéla og segja að best sé að slökkt sé á öllum slíkum snjalltækjum um borð í flugvélum. Truflanirnar eru sagðar orsakast af tíðnigjafa sem er jafnsterkur, ef ekki sterkari, en tíðnin sem notuð er í flughæðarmælum.

„Notkun 5G-snjalltækja um borð í flugvél getur leitt til truflana sem gætu valdið því að vitlaust yrði lesið á flughæðarmæla,“ hefur AFP eftir talsmanni franskra flugmálayfirvalda. Einnig kom fram í máli talsmannsins að þessar truflanir væru sérstaklega hættulegar við lendingu.

Í tilkynningu franskra flugmálayfirvalda til hinna ýmsu flugfélaga segir að 5G-snjalltæki skuli höfð í flugstillingu (e. airplane mode) eða þá að slökkt sé á þeim um borð. Þá hafa frönsk flugmálayfirvöld sagst ætla að kortleggja hvar farsímamöstur fyrir 5G-tengingar í Frakklandi eru staðsett til þess að geta betur fyrirbyggt að slys verði vegna truflana. Sú vinna er unnin í samvinnu við frönsku fjarskiptastofnunina.

mbl.is

Bloggað um fréttina