Líkur á að íslenskar raddir í Android hverfi

Blindrafélagið varar félagsmenn sína við að uppfæra Android-snjalltæki sín.
Blindrafélagið varar félagsmenn sína við að uppfæra Android-snjalltæki sín. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Miklar líkur eru á því að íslensku skjálestursraddirnar Karl og Dóra hætti að virka þegar ný uppfærsla Android-stýrikerfisins er tekin í notkun í viðeigandi snjalltækjum. Blindrafélagið hefur varað notendur við því að uppfæra sín snjalltæki, noti fólk raddirnar mikið við skjálestur.

Íslensku raddirnar voru settar á markað fyrir Windows- og Android-stýrikerfin árið 2012 og hafði Blindrafélagið lengi umsjón með uppfærslu og aðlögun skjálestursraddanna. Margir reiða sig á notkun þeirra við skjálestur á meðan aðrir nota þær við nám, fréttalestur, yndislestur og samskipti.

Á vef Blindrafélagsins segir að þessi þróun sé sorgleg vegna þess að engar aðrar lausnir séu í vændum. Í ágúst á þessu ári er mögulegt að engin íslensk rödd verði aðgengileg til skjálesturs í Android-snjalltækjum.

Fyrir þá sem nú þegar hafa uppfært Android-snjalltæki sín má finna leiðbeiningar til þess að reyna að endurheimta Karl og Dóru.

mbl.is