„Þetta er klikkað í raun og veru“

Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður Rafíþróttasamtaka Íslands, er að vonum mjög …
Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður Rafíþróttasamtaka Íslands, er að vonum mjög ánægður með að eitt stærsta rafíþróttamót heims verði haldið hér á landi í maí. mbl.is/Hari

„Þú ert í rauninni að fá PR-vélina, Riot Games, sem er eitt stærsta tölvuleikjafyrirtæki í heiminum til að keyra landkynningu fyrir Ísland í mánuð,“ segir Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður Rafíþróttasamtaka Íslands, í samtali við mbl.is um ákvörðun Riot Games að halda eitt stærsta rafíþróttamót heims hér á landi í maí.

Tölvuleikjaframleiðandinn staðfesti í dag að mótið League of Legends Mid-Season Invitational yrði haldið í Laugardalshöll í maí. Þá verður fyrsta alþjóðlega mótið í tölvuleiknum Valorant einnig haldið á sama stað og munu mótin standa yfir í um fjórar vikur. Um fjögur hundruð manns munu koma til Íslands í tengslum við mótin.

Fleiri áhorfendur en á Super Bowl

Til að setja þetta í samhengi fyrir þá sem ekki þekkja til bendir Ólafur Hrafn á að tölvuleikjaiðnaðurinn sé stærri en tónlistar-, kvikmynda- og streymisveituiðnaðurinn til samans.

„Þetta er risavaxið. Riot Games eru stærstir í heiminum í rafíþróttum og þeir eru að koma með einn af sínum stærstu viðburðum til landsins. Þetta er bara klikkað í raun og veru,“ útskýrir Ólafur.

League of Legends, eða LOL, er einn vinsælasti tölvuleikur veraldar og áhorf á beinar útsendingar frá keppnum atvinnumanna njóta gríðarlegra vinsælda. Allajafna eru um 100 milljónir manna að horfa á úrslitaleiki í svona mótum, flestir horfa frá Asíu. Til samanburðar horfðu um 92 milljónir manna á Super Bowl sem fór fram í febrúar síðastliðnum.

„Ég held að þetta muni vera, hvað áhorf varðar, stærsti keppnisviðburður sem hefur verið haldinn á Íslandi. Ef fólk fékk Snapchat-myndir af vinum sínum í Super Bowl-partíum um miðja nótt þá verður það sama uppi á teningnum í Kína, nema þeir verða að senda myndir á milli af viðburði sem verður á Íslandi,“ bætir Ólafur við.

Mótið er eitt það stærsta í rafíþróttaheiminum. Á annað hundruð …
Mótið er eitt það stærsta í rafíþróttaheiminum. Á annað hundruð milljónir manna horfa að jafnaði á úrslitaleiki í stórum mótum. Ljósmynd/Riot Games

Uppbygging rafíþrótta á Íslandi án hliðstæðu

Mótið fer þannig fram að hingað koma sigurvegarar úr öllum atvinnumannadeildunum um allan heim sem eru tólf talsins. Þeir keppa fyrst í riðlakeppni, svo útsláttarkeppni þangað til eitt lið stendur eftir sem sigurvegari.

Ólafur vill ekki mikið segja um aðkomu Rafíþróttasamtakanna að þá ákvörðun Riot Games að velja Reykjavík sem mótstað en segir að undirbúningur fyrir svona mót taki sinn tíma og að samtökin hafi verið tölvuleikjaframleiðandanum innan handar.

„Við höfum að sjálfsögðu verið mjög virk í því síðustu ár að tala við erlenda aðila og vekja athygli á Íslandi og koma okkur inn í þessa umræðu sem við vorum ekki hluti af fyrir þremur árum. Þá hafði enginn hugsað um Ísland. En hluti af ástæðunni fyrir því að fólk er að horfa til Íslands núna er þessi árangur sem við höfum náð í uppbyggingu rafíþrótta hérna á Íslandi á síðustu árum. Hún á sér varla hliðstæðu,“ segir Ólafur og nefnir sem dæmi að á landinu eru 77 lið skráð í keppni í tölvuleiknum Counter-Strike.

mbl.is