Býður upp á tunglferð

Yusaku Maezawa.
Yusaku Maezawa. AFP

Japanskur milljarðamæringur, Yusaku Maezawa, auglýsti á Twitter í dag eftir átta manneskjum sem eru til í að ferðast með honum til tunglsins. Hann sé búinn að borga fyrir sætin. 

Greint var frá því árið 2018 að Maezawa verði fyrsti al­menni borg­ar­inn sem fer á braut um tunglið, gangi áætl­un SpaceX, fyr­ir­tæk­is Elon Musk, upp. 

Ekki hefur verið gefið upp hvað Maezawa greiddi fyrir farmiðann til tunglsins en gert er ráð fyrir að ferðin verði farin í fyrsta lagi árið 2023. Fyrst ætlaði hann að bjóða 6-8 listamönnum með sér en hefur greinilega skipt um skoðun.  „Ég býð ykkur að koma með mér í þessa för. Átta manns víðs vegar að úr heiminum. Ég keypti öll sætin þannig að þetta verður einkaferð,“ segir Maezawa í myndskeiði á Twitter. 

Maezawa segist núna hafa talað um listamenn á sínum tíma því það væri hans skilningur að allar skapandi manneskjur geti kallast listamenn. Það eina sem hann fari fram á er að viðkomandi sé hvetjandi og skapandi.  Alls verði 10-12 einstaklingar um borð í geimferjunni.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert