Líkir leyfisveitingu við rússneska rúllettu

AFP

Stjórnarformaður framkvæmdastjórnar Lyfjastofnunar Evrópu varaði í gær við því að þjóðir álfunnar myndu veita rússneska bóluefninu Spútnik V bráðaleyfi og líkti því í raun við rússneska rúllettu.

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um lyf fyrir menn (CHMP) hóf í síðustu viku áfangamat á bóluefninu Spútnik V sem var þróað í Rússlandi.

Á vef Lyfjastofnunar Íslands kemur fram að EMA muni meta gögn eftir þau sem þau verða tiltæk með tilliti til hvort ávinningur af notkun lyfsins vegi þyngra en áhættan af notkuninni. EMA mun meta bóluefnið út frá evrópskum stöðlum um virkni, öryggi og gæði. Áfangamatið heldur áfram þar til nægjanleg gögn liggja fyrir til að sækja formlega um markaðsleyfi.

Ungversk yfirvöld hafa þegar veitt Spútnik V markaðsleyfi og er það nú hluti af bólusetningaráætlun landsins. Eins hafa yfirvöld í Tékklandi og Slóvakíu pantað bóluefnið og sagt að þau muni ekki bíða eftir samþykki EMA. 

Spurð út í hvort Austurríki ætti að stíga svipað skref segir Christa Wirthumer-Hoche, stjórnarformaður framkvæmdastjórnar EMA, að það væri álíka og taka þátt í rússneskri rúllettu. „Ég myndi mæla eindregið frá því að veitt yrði bráðaleyfi,“ sagði hún í viðtali við ORF, ríkisstjórnvarpsstöð Austurríkis, í gærkvöldi. Vísaði hún til þess að ekki væru fyrirliggjandi nægjanlega góðar upplýsingar um að áhrif þess á þá sem þegar hafa verið bólusettir. 

Hún segir að svo geti farið að Spútnik V fari á markað í framtíðinni eða þegar gögnin hafa verið rannsökuð nægjanlega. Að bóluefnið verði að standast þær kröfur sem eru gerðar til bóluefna í Evrópu. 

Kanslari Austurríkis, Sebastian Kurz, átti á föstudag fund með rússneskum embættismanni sem fer með markaðssetningu Spútnik V og hafði áður sagt að bólusetningarferlið eigi ekki að verða hluti af landfræðilegum ágreiningi. Kurz segir að Austurríki muni hins vegar bíða eftir samþykki EMA. 

Rússar hafa sagt að þegar Spútnik V fær markaðsleyfi í Evrópu verði hægt að útvega 50 milljónir skammta fyrir íbúa álfunnar.

Þau þrjú bóluefni sem hafa hlotið leyfi í Evrópu eru Pfizer-BioNTech, Moderna og AstraZeneca. Von er á því að Jansen-Johnson & Johnson bóluefnið verði samþykkt 11. mars. Auk þess sem  bóluefni Novavax og CureVac eru til skoðunar líkt og Spútnik V.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert