Bóluefni AstraZeneca rúið trausti

Von er á tilkynningu Lyfjastofnunar Evrópu í dag varðandi bóluefni AstraZeneca og öryggi þess. Á sama tíma fjölgar nýjum smitum hratt víða í Evrópu en á annan tug ríkja hefur hætt að nota bóluefnið tímabundið á meðan rannsakað er hvort tengsl séu á milli þess og blóðtappa. Enn sem komið er hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að svo sé.

Smitin hafa ekki verið fleiri í 4 mánuði

Frönsk yfirvöld greindu frá því að 38.501 smit hefði verið staðfest í landinu á einum sólarhring í gær. Smitin hafa ekki verið jafn mörg á einum sólarhring í fjóra mánuði. Skoðað er hvort setja eigi á útgöngubann að mestu í París um helgina. Staðfest smit á mánudag voru tæplega 30 þúsund talsins.

Skömmu eftir miðnætti var greint frá því að 1.064 ný smit hafi verið staðfest í Noregi í gær. Það er fjölgun um 379 á milli daga. Alls hafa 83.519 smitast af Covid-19 í Noregi. 

Alls hafa 91.427 látist úr Covid-19 í Frakklandi og þar eru nú 4.219 á gjörgæslu vegna veirunnar. Flestir þeirra á Île-de-France-svæðinu en það er París og svæðið í kringum borgina.

Í Frakklandi er nú allt kapp lagt á að herða á bólusetningum þrátt fyrir að hlé hafi verið gert á bólusetningum með bóluefni AstraZeneca. Nú hafa 5,5 milljónir Frakka fengið að minnsta kosti annan skammtinn af bóluefni og tæplega 2,4 milljónir hafa fengið báða skammtana. 

Óttast bólusetningu með AstraZeneca-bóluefninu

„Mér líður eins og það sé verið nota okkur eins og tilraunadýr,“ segir Khady Ballo, 21 árs laganemandi í Montpellier í samtali við New York Times. Ég mun ekki láta bólusetja mig með bóluefni AstraZeneca, jafnvel þó að það verði samþykkt að nýju bætir hann við.

Talið er að EMA muni í dag lýsa því yfir að bóluefnið sé öruggt en þrátt fyrir það má búast við því að margir hugsi sig um tvisvar áður en þeir láta bólusetja sig. „Áður en þetta kom upp var ég svo mikið fylgjandi bólusetningum að ég hefði dýft börnum ofan í bóluefnið,“ segir Maria Grazia Del Pero, 62 ára, sem starfar við ferðaiðnaðinn í Mílanó, í samtali við NYT. „En núna myndi ég ekki fá AstraZeneca þar sem það er eins og að spila rússneska rúllettu,“ bætir hún við.

Líkt og fram kemur í New York Times er það allt annað en auðvelt verkefni að útvega bóluefni fyrir 450 milljónir íbúa ríkja ESB. Skrifræðið og glundroði varðandi samninga við bóluefnaframleiðendur ásamt hægfara samþykki og vandræðum við að standa við áætlanir um afhendingu hafi ekki aukið á tiltrú Evrópubúa á samstarf um bóluefnakaup. Ekki hafi þær fregnir sem birtust fyrir viku um möguleg tengsl á milli blóðtappa og bólusetningar með bóluefni AstraZeneca bætt úr skák segir í frétt NYT.  

Í Frakklandi hefur ríkisstjórnin umpólast í afstöðu sinni, frá því að hvetja alla til að láta bólusetja sig í að stöðva tímabundið bólusetningar með bóluefni AstraZeneca.

Í könnun sem birt var á þriðjudag kemur fram að aðeins 20% Frakka treysta AstraZeneca bóluefninu, 58% eru í vafa og 22% hafa ekki myndað sér skoðun. 

„Ég treysti AstraZeneca, ég treysti bóluefnum,“ sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, á fréttamannafundi í Brussel. Í grein NYT er því velt upp hvort almenningur treysti því einnig.

Til þess að reyna að sannfæra landa sína um mikilvægi bólusetninga hefur forsætisráðherra Frakklands, Jean Castex, sagt að hann ætli að láta bólusetja sig með AstraZeneca um leið og grænt ljós verður gefið á það. Hann hefur aldrei áður talað á þessum nótum. 

Í Bretlandi hafa yfir 25 milljónir fengið fyrri skammtinn af bóluefni við Covid-19 og af þeim hafa 11 milljónir verið bólusettar með AstraZeneca-bóluefninu. Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, sagði í gær að hann myndi láta bólusetja sig með bóluefni AstraZeneca. 

Ítalski veirufræðingurinn Roberto Burioni segir að þetta snúist ekki bara um bóluefni AstraZeneca heldur einnig um traust sem almenningur ber til stjórnvalda. Þessar skyndilegu og óvæntu breytingar í ákvörðunum veki ugg meðal allra. Jafnvel góð niðurstaða frá EMA í dag nægi væntanlega ekki til að sannfæra fólk. 

mbl.is