Stuðningsfólk Miðflokksins síður með Netflix

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. Stuðningsfólk Miðflokksins eru ólíklegri en …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. Stuðningsfólk Miðflokksins eru ólíklegri en stuðningsmenn annarra flokka að hafa aðgang að streymisveitunni Netflix. Samsett mynd

Þrjú af hverjum fjórum heimilum á Íslandi hafa aðgang að streymisveitunni Netflix og um fjórðungur að streymisveitunni Disney+. Ný könnun MMR um aðgang landsmanna að sjónvarps- og streymisveitum sýnir þetta. Þá eru stuðningsmenn Viðreisnar líklegastir til þess að hafa aðgang að Netflix en stuðningsmenn Miðflokksins ólíklegastir.

Könnunin var gerð dagana 13.-18. janúar síðastliðinn og var heildarfjöldi svarenda 915, allir 18 ára eða eldri.

Meðal innlendra sjónvarps- og streymisveitna stendur Sjónvarp Símans Premium best. Um 44% svarenda segjast hafa aðgang að Sjónvarpi Símans Premium en 27% hafa aðgang að Stöð 2+. Aðgengi að Sjónvarpi Símans Premium jókst eftir því sem svarendur urðu eldri. Þannig er 51% svarenda á aldrinum 50-67 ára með aðgang að streymisveitu Símans.

Skörp skipting milli flokka

Eins og fyrr segir eru stuðningsmenn Viðreisnar líklegastir til þess að hafa aðgang að Netflix (92%), næstir koma stuðningsmenn Pírata (83%), þá stuðningsmenn Samfylkingar (81%) en ólíklegri eru stuðningsmenn Flokks fólksins (66%) og stuðningsmenn Miðflokksins (61%).

Stuðningsfólk Framsóknar (64%), Flokks fólksins (56%) og Sjálfstæðisflokksins (54%) reyndist líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segja einhvern á heimili sínu hafa aðgang að Sjónvarpi Símans Premium. Þannig voru stuðningsmenn Vinstri-grænna (29%) og Pírata (25%) ólíklegastir til þess að hafa aðgang að streymisveitu Símans.

mbl.is

Bloggað um fréttina