Telur að um tengsl sé að ræða

AFP

Yfirmaður bólusetninga hjá Lyfjastofnun Evrópu (EMA) segir í viðtali við ítalska dagblaðið Il Messaggero í dag að hann telji að tengsl séu á milli bólusetninga með AstraZeneca-bóluefninu og blóðtappa.

„Það er mín skoðun og við getum séð það núna að það eru augljós tengsl við bóluefnið. En við vitum ekki hvað veldur þessum viðbrögðum,“ segir Marco Cavaleri í viðtali við Il Messaggero og AFP-fréttastofan vísar til. 

Að hans sögn verður greint frá því innan fárra klukkustunda en um leið að ekki sé vitað hvernig þetta eigi sér stað.

Líkt og Lyfjastofnun Íslands greindi frá á miðvikudag fundaði sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC) þann dag vegna yfirstandandi mats á mjög sjaldgæfum tilfellum blóðtappa þar sem magn blóðflagna er einnig minnkað (blóðflagnafæð).

Utanaðkomandi sérfræðingar í ýmsum sérgreinum, þ.á m. blóðsjúkdómum, taugalækningum og faraldsfræði, voru fengnir til að mæta á fundinn og láta í ljós álit sitt á fyrirliggjandi gögnum til frekari glöggvunar. PRAC mun nýta álit sérfræðihópsins ásamt frekari greiningu á tilkynntum tilfellum í áframhaldandi mati nefndarinnar.

Rýni PRAC hefur enn ekki leitt í ljós neina sérstaka áhættuþætti fyrir umrædd tilvik sjaldgæfra blóðtappa, eins og aldur, kyn eða fyrri sögu um kvilla í storkukerfi (e. clotting disorders). Ekki hefur verið sýnt fram á orsakasamhengi milli notkunar bóluefnisins og tilvikanna en það er mögulegt og frekari greining fer nú fram.

EMA er þeirrar skoðunar að ávinningur af notkun bóluefnis AstraZeneca til að koma í veg fyrir Covid-19 vegi þyngra en áhættan af hugsanlegum aukaverkunum þess.

EMA vinnur áfram með yfirvöldum í Evrópu til að tryggja að öll tilvik sérstakra blóðtappa séu tilkynnt en tilvikin eru til skoðunar í yfirstandandi mati PRAC.

Gert er ráð fyrir uppfærðum meðmælum nefndarinnar eftir fundinn sem fram fer 6.-9. apríl.

Cavaleri segir að reynt sé að sjá heildarmyndina yfir það sem gerist til þess að hægt sé að greina nákvæmlega hvað veldur. Meðal þeirra sem hafa verið bólusettir eru fleiri tilvik heilaæðarblóðstorknunar meðal ungs fólks en vænta mátti. 

mbl.is