Aukinn hraði skapar meira svifryk

Svifryk og útblástur frá ökutækjum er orðið að miklu vandamáli …
Svifryk og útblástur frá ökutækjum er orðið að miklu vandamáli á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/RAX

Lækkun hámarkshraða úr 50 niður í 30 km/klst. á tímabilinu 1. nóvember – 15. apríl, tímabili sem nagladekk eru leyfileg, gæti dregið úr svifryksmengun um 40%. Aukinn hraði skapar þannig meiri mengun. Þetta eru niðurstöður rannsóknar Þrastar Þorsteinssonar, prófessors í umhverfis- og auðlindafræði við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, sem birtar hafa verið á vef Reykjavíkurborgar.

Nagladekk menga meira

Sé miðað við að helmingur bílaflotans sé á nagladekkjum á umræddu tímabili myndi svifryksmengun lækka um allt að 40% ef hámarkshraði yrði lækkaður í 30 km/klst. þar sem hann er nú 50 km/klst., eins og fyrr segir.

Við að lækka hraða úr 90 km/klst. niður í 70 myndi samdráttur í svifryksmengun verða um 31% og 34% ef hraði er lækkaður úr 70 niður í 50.

Fyrir bíl á ónegldum dekkjum drægist svifryksmengun saman um 22% ef hraði færi úr 90 km/klst. niður í 70, 24% ef hraði færi úr 70 niður í 50 og 27% ef hraði er lækkaður úr 50 niður í 30.

Í rannsókn sinni skoðar Þröstur einnig sundurliðun á þeirri svifryksmengun sem til fellur vegna bíla. Miðað við nýlegan bíl á ónegldum dekkjum skapar útblástur bílsins 7% af svifryksmengun sem af bílnum hlýst, slit á bremsum 33%, slit á dekkjum 21% og vegslit 39%. Fyrir sams konar bíl á nagladekkjum nemur vegslit 92% allrar svifryksmengunar sem hlýst af bílnum.

mbl.is