Nýtt bóluefni lofar góðu fyrir heimsbyggðina

Bóluefnið, sem enn er á tilraunastigi, lofar góðu. Talið er …
Bóluefnið, sem enn er á tilraunastigi, lofar góðu. Talið er að mun auðveldara yrði að framleiða það en fyrri efni. Það kæmi væntanlega ekki í notkun fyrr en Íslendingar hefðu lokið bólusetningum, en gæti skipt sköpum fyrir fátækari lönd. AFP

Nýtt bóluefni gegn kórónuveirunni sem er á leið í klínískar tilraunir í Brasilíu, Mexíkó, Taílandi og Víetnam, gæti breytt baráttu heimsins við faraldurinn. Sagt er frá efninu í New York Times, en þar segir að efnið sé byltingarkennt fyrir þær sakir að það er talið skapa öflugra mótefni en aðrar tegundir bóluefna. Þá gæti verið töluvert auðveldara að framleiða það.

Þau bóluefni sem nú eru á markaðnum, svo sem efni Pfizer og Janssen, verða að vera framleidd í sérstökum verksmiðjum með illfáanlegum innihaldsefnum. Þetta bóluefni, sem nefnist því þjála nafni NDV-HXP-S, er hins vegar hægt að fjöldaframleiða í hænueggjum. Slíkt kann að koma lesendum spánskt fyrir sjónir, en hænuegg eru jú notuð til að framleiða milljarða skammta inflúensubóluefna á hverju ári í verksmiðjum um allan heim.

Væri hægt að framleiða milljarð skammta á ári

Ef NDV-HXP-S reynist öruggt og áhrifaríkt gætu framleiðendur inflúensubóluefna hugsanlega framleitt yfir milljarð skammta af efninu á ári.

Þótt bólusetning sé komin á gott skrið á Vesturlöndum og Evrópubúar kveinki sér yfir að þurfa hugsanlega að bíða fram á síðsumar með að fá bóluefni, er staðan nefnilega síður en svo jafngóð um heim allan. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gerði fyrr á árinu ráð fyrir að í Afríku verði aðeins um 20% íbúa bólusettir fyrir árslok.

„Þetta gæti gjörbreytt stöðunni,“ segir Andrea Taylor, aðstoðarfamkvæmdastjóri hjá Duke Global Health Innovation-stofnuninni í samtali við New York Times. Fyrst þurfa klínískar tilraunir þó að sýna að efnið virki vel í mönnum. Fyrsta fasa tilrauna lýkur í júlí og ættu síðari fasar að taka nokkra mánuði. Því er ólíklegt að nokkur Íslendingur komi til með að verða bólusettur með efninu.

Tilraunir á dýrum eru sagðar lofa góðu. „Vörnin er virkilega góð. Ég held að þetta bóluefni sé í heimsklassa,“ hefur New York Times eftir Bruce Innis hjá PATH-bóluefnastofnuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert