40 daga einangrun lokið

Fjörutíu daga útlegð hóps franskra sjálfboðaliða í Pýrenneafjöllum lauk í gær. Fólkið hefur hafst við í hellinum Lombrives, skammt frá landamærunum að Andorra, síðustu vikur, í algjöru myrkri og án nokkurra samskipta við umheiminn.

Tilrauninni var ætlað að kanna aðlögunarhæfni fólks og hve vel því gengi að halda utan um tímann án nokkurrar leiðsagnar. Hópur vísindamanna fylgdist með fólkinu og hvernig því gekk að sinna daglegum verkefnum í Lombrives-hellinum sem er einn lengsti og dýpsti hellir í Evrópu.

Engin afskipti voru höfð af fólkinu fyrr en degi áður en dvölinni lauk til að láta fólkið vita að tilraunin væri senn á enda. Þegar fólkið var svo sótt úr hellinum var það að vonum frelsinu fegið, en allir þátttakendur báru sólgleraugu við komuna út til að gefa augunum tíma til að venjast sólarljósinu.

Heilastarfsemi þátttakenda var könnuð bæði fyrir og eftir dvölina. Fransk-svissneski vísindamaðurinn Christian Clot, sem stýrir verkefninu, segir líta út fyrir að tíminn líði mun hægar í hellinum – nokkuð sem kemur kannski ekki á óvart. „Það var eins og lífið hefði verið sett á pásu,“ lýsir einn þátttakandi dvölinni.

Sjálfboðaliðarnir líta sólina augum í fyrsta sinn eftir 40 daga …
Sjálfboðaliðarnir líta sólina augum í fyrsta sinn eftir 40 daga dvöl í helli í Pýrenneafjöllum. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert