Ætla að framleiða 3 milljarða skammta

AFP

Bandaríska lyfjafyrirtækið Moderna boðaði í dag gríðarlega aukningu í framleiðslu á bóluefni fyrirtækisins við Covid-19. Samkvæmt tilkynningu frá Moderna er stefnt að framleiðslu á allt að þremur milljörðum skammta af bóluefninu á næsta ári. 

Aukið fé verður sett í framleiðslu fyrirtækisins í Evrópu og í Bandaríkjunum. Meðal annars verður framleiðslan tvöfölduð hjá svissnesku samstarfsfyrirtæki Moderna, Lonza, og ríflega tvöfölduð hjá Rovi á Spáni. Framleiðsla Moderna í Bandaríkjunum verður aukin um 50%. 

Auk aukningar í framleiðslu á næsta ári verður gefið í hvað varðar framleiðsluna í ár og er stefnt að framleiðslu 800-1000 milljónum skammta af bóluefninu. 

Bóluefni Moderna er eitt þeirra fjögurra bóluefna sem Lyfjastofnun Evrópu hefur veitt markaðsleyfi í Evrópu. Hið sama á við um Lyfjastofnun Íslands en lítið magn af bóluefninu hefur borist hingað til lands enn sem komið er. 

Samningur Íslands við Moderna var undirritaður 30. desember 2020 og viðbótarsamningur 18. mars 2021. Evrópska lyfjastofnunin (EMA) hélt matsfund vegna Moderna 6. janúar 2021, framkvæmdastjórn ESB veitti bóluefninu skilyrt markaðsleyfi í kjölfarið auk þess sem Lyfjastofnun hefur veitt bóluefninu skilyrt markaðsleyfi á Íslandi. Ísland fær um 294.500 skammta sem duga fyrir um 147.250 einstaklinga að því er segir á vef Stjórnarráðsins.

Á vef Lyfjastofnunar segir: Covid-19 Vaccine Moderna er bóluefni til varnar Covid-19 hjá einstaklingum 18 ára og eldri.

Í bóluefninu er svokallað mRNA sem inniheldur leiðbeiningar fyrir framleiðslu gaddapróteina (e. spike proteins), en þau eru einkennandi fyrir veiruna sem veldur Covid-19-sjúkdómi (SARS-CoV-2). COVID-19 Vaccine Moderna inniheldur ekki sjálfa veiruna og getur ekki valdið Covid-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert